Skjálfti upp á 4,6

Eldvörp á Reykjanesi.
Eldvörp á Reykjanesi. mbl.is/Sigurður Bogi

Snarpur jarðskjálfti reið yfir fyrir skömmu, klukkan 8:53, og samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var hann 4,6 stig. 

Jarðskjálftinn var við Eldvörp um tvo km suður af Sandfellshæð. Skjálftinn fannst nokkuð víða eða allt norður á Akranes og Hvanneyri og austur á Hvolsvöll. Gera má ráð fyrir að þessi skjálfti hafi verið vegna spennubreytinga á svæðinu vestan við kvikuganginn sem myndast hefur undir Fagradalsfjalli að því er segir í tilkynningu frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands.

Eldvörp er 10 km löng gígaröð norðvestur af Grindavík. Eldvarpahraun er eitt þeirra hrauna sem runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu 1211-1240. Önnur hraun frá þessum eldum eru Stampahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Suðurendi Eldvarpagígaraðarinnar er við vestanvert Staðarberg, þar sem hraunið hefur runnið í sjó, en í norðri endar hún tæpa tvo km vestur af Bláa lóninu. Hún er alls um tíu km löng en nokkuð slitrótt. Mest hraunframleiðsla hefur verið í Eldvörpum, skammt sunnan miðju gígaraðarinnar.

Flatarmál Eldvarpahrauns er um 20 km2. Gígarnir á Eldvarpagígaröðinni eru gjall- og klepragígar og eru sumir þeirra allstæðilegir. Hraunið er ýmist slétt helluhraun, uppbrotið helluhraun eða úfið kargahraun.

Jarðhiti er í Eldvörpum sem nýttur er til orkuframleiðslu í Svartsengi að því er segir á vef íSOR en hér er hægt að skoða myndina í betri upplausn.

Eldvörp á Reykjanesi.
Eldvörp á Reykjanesi. Ljósmynd ÍSOR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert