Kári hefur fulla trú á AstraZeneca

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur fulla trú á bóluefni AstraZeneca. Það kæmi honum „feikilega á óvart“ ef hægt væri að sýna fram á orsakatengsl milli bólusetningarinnar og blóðtappa.

Ísland er í hópi þónokkurra Evrópuríkja sem gert hafa hlé á notkun bóluefnisins vegna hugsanlegra tengsla við blóðtappa, en tilkynnt hefur verið um andlát í kjölfar bólusetningarinnar bæði í Danmörku og Austurríki.

„Það má ekki gleyma því að sá eini guð sem er til í þessum heimi heitir tilviljun, og það eru svo margar tilviljanakenndar tengingar sem verða í heiminum,“ segir Kári og bendir á að bóluefnið verji menn aðeins gegn kórónuveirunni (SARS-CoV-2) en ekki öllum þeim sjúkdómum sem hrjá mannkynið. Því sé ekki óeðlilegt að upp komi sjúkdómar hjá fólki sem hefur fengið bóluefnið, frekar en hjá öðrum.

Svokölluð lyfjagátarnefnd (PRAC) Evrópsku lyfjastofnunarinnar er með efnið til rannsóknar, en að sögn Rúnu Hauksdóttur Hvannberg, forstjóra Lyfjastofnunar, er niðurstaðna frá nefndinni að vænta í næstu viku. Hvorki Evrópska lyfjastofnunin né Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafa þó séð ástæðu til að mæla með því að notkun bóluefnisins sé hætt meðan á þeirri skoðun stendur.

Hlé hefur verið gert á notkun bóluefnis AstraZeneca vegna rannsóknar …
Hlé hefur verið gert á notkun bóluefnis AstraZeneca vegna rannsóknar á hugsanlegum aukaverkunum þess. AFP

Sammála ákvörðun Þórólfs um hlé

Kári er þó ekki ósammála þeirri ákvörðun sóttvarnalæknis að gera hlé á nokrun efnisins. „Þó svo að [Þórólfur Guðnason] sé á sama máli og ég, að það sé afskaplega ólíklegt að það séu orsakatengsl, þá eru reglur sem myndast af hefð þær að þegar svona kemur upp þá tekur maður skref afturábak af því manni ber skylda til þess að vera alveg ofboðslega varkár þegar maður er að fikta í líffræði fólks.“

En hefur Kári áhyggjur af því að ákvörðunin hafi áhrif á almenningsálitið í garð efnisins? spyr blaðamaður þá, og Kári svarar: „Ég skal segja þér það, ef það er eitthvað sem mér er nákvæmlega sama um þá er það almenningsálitið.“

Hann viðurkennir þó, þegar spurningin er endurorðuð, að sá möguleiki sé fyrir hendi að ákvörðunin hafi neikvæð áhrif á bólusetningarferlið, ef almenningsálitið snýst um of. „Sá möguleiki er fyrir hendi að þetta gerði brekkuna aðeins brattari, en ekki gleyma því að við gerum öll ráð fyrir að það sé til nokkuð sem heitir hjarðónæmi,“ segir Kári. Þó svo að þeim sem vilja láta bólusetja sig kynni að fækka lítillega ætti það ekki að hafa mikil áhrif.

„Við komum til með að bólusetja nægilega marga til að þeir óbólusettu verði varðir líka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert