Skjálftavirkni nær nú upp af dalnum Nátthaga suður af Fagradalsfjalli en það gefur vísbendingar um að þar liggi syðsti endi kvikugangsins. Þetta eru niðurstöður fundar Vísindaráðs almannavarna um jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga.
Mikil skjálftavirkni hefur verið á svæðinu suður af Fagradalsfjalli frá því á miðnætti og rétt fyrir átta í morgun mældist þar skjálfti sem var 5,0 að stærð.
Segir þá í tilkynningu frá Vísindaráði að úrvinnsla á gps-mælingum sýni að kvikugangurinn heldur áfram að stækka en þó er óvissa um hversu hratt kvikuflæðið sé.
„Líkt og áður hefur komið fram í tilkynningum vísindaráðs, að meðan kvikugangurinn heldur áfram að stækka, þá þarf að gera ráð fyrir því að gosið geti á svæðinu. Eftir því sem núverandi ástand varir lengur aukast líkur á gosi,“ segir í tilkynningunni.
„Ef horft er til gossögunnar og jarðfræðirannsókna á svæðinu er ólíklegt að gossprunga sem opnast suður af Fagradalsfjalli nái til sjávar. Eins og staðan er núna er því ólíklegt að það gjósi neðansjávar með tilheyrandi öskugosi,“ segir í tilkynningunni.
Á fundinum var möguleg gasmengun einnig rædd. Áður en til þessara hræringa kom var einungis ein mælistöð á Reykjanesskaga sem mældi brennisteinsdíoxíð (SO2). Umhverfisstofnun hefur nú bætt við tveimur mælum, einum í Vogum og öðrum í Njarðvík, og hyggst bæta við mælum í Reykjanesbæ.
„Veðurstofan hefur sett upp dreifilíkan sem spáir fyrir um dreifingu gasmengunar út frá veðurspá hverju sinni. Með mælingum og dreifilíkaninu er hægt að meta áhrif mengunar af völdum mögulegs goss á íbúa á svæðinu og senda í framhaldinu út tilkynningar með skilaboðum um viðeigandi viðbrögð,“ segir að lokum í tilkynningunni.
Tilkynningu Vísindaráðs almannavarna má finna á vefsíðu almannavarna.