Ragnar Þór Ingólfsson segist mjög sáttur við niðurstöðu allsherjaratkvæðagreiðslu sem fór fram í dag. En líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag var Ragnar Þór Ingólfsson endurkjörinn formaður VR.
Ragnar sagði kosninguna mjög góða en hann hlaut 63% atkvæða og 65% af greiddum atkvæðum.
„Ég hef fundið fyrir miklum stuðningi en þegar kosningar eru annars vegar tekur maður engu sem gefnu,“ sagði Ragnar í samtali við mbl.is.
Ragnar sagðist þó hafa verið vongóður um að hann hlyti eitthvað af atkvæðum og bætti við:
„Það að fá góðan meirihluta er bara ákaflega jákvætt og gefur mér færi á að halda áfram með þau verkefni sem við erum að vinna.“
Mótframbjóðandi Ragnars var Helga Guðrún Jónasdóttir en hún hlaut 34,3% atkvæða.
„Ég er bara óskaplega þakklát fyrir allan stuðninginn og þakklát mínu stuðningsfólki fyrir frábæra baráttu, en þetta bara hafðist ekki,“ sagði Helga Guðrún í samtali við mbl.is.
„Svo bara óska ég Ragnari góðs gengis og áfram VR,“ sagði Helga Guðrún að lokum.