„Við skiljum vel aðstöðu Vestfirðinga og erum náttúrulega að bregðast við núna með því að leggja enn meiri áherslu á landsamgöngurnar en við skiljum vel að þetta [öruggar samgöngur á sjó] er það sem þeir koma til með að þurfa til framtíðar.“
Þetta segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is um stöðu í samgöngumálum á sunnanverðum Vestfjörðum. Allar leiðir til og frá svæðinu lokuðust í miðri viku þegar ferjan Baldur bilaði á miðjum Breiðafirði. Ferjan bilaði með sambærilegum hætti í fyrra.
Þá var ófært um Klettháls og ekki hafði verið flogið á Bíldudal í einhverja daga vegna veðurs. Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps hefur krafist þess að Vegagerðin og samgönguyfirvöld bregðist við ótryggri stöðu í samgöngumálum á svæðinu og útvegi aðra ferju sem hentar til siglinga á Breiðafirði.
Þá hefur Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra látið hafa það eftir sér að staðan á Baldri og þjónustunni sé óviðunandi. Samningur Vegagerðarinnar við Sæferðir, sem er í eigu Eimskips, um rekstur ferjunnar rennur út vorið 2022.
Spurð hvort hefði komið til tals að gera breytingar áður en samningurinn rennur út, t.d. með því að fá annað skip, segir Bergþóra að margt hafi verið rætt. Samningurinn hafi verið gerður til að brúa bilið þangað til vegasamgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum væru orðnar betri. Um sé að ræða stórframkvæmdir en þær hafi tafist.
„Við höfum verið í samskiptum við bæði þingmenn og sveitarstjórnafólk á Vestfjörðum til að reyna að átta okkur betur á þessum þörfum og það má eiginlega segja að niðurstaðan sé sú að þrátt fyrir þessar vegabætur þá þarf ferjuna til að tryggja afhendingaröryggi,“ segir Bergþóra og bætir við:
„Við höfum verið að vekja athygli á því við yfirvöld að þessi samningur gefur okkur svigrúm til að meta stöðuna og hvað þarf að koma til [eftir að hann rennur út]. Við erum í sjálfu sér byrjuð á þeirri vinnu eða byrjuð að hugsa í þá átt. Það hefur ýmislegt verið til skoðunar hvað kemur í kjölfarið á þessum samningi.“
Spurð hvort það komi til greina að segja honum upp áður en honum lýkur segir Bergþóra það ekki fyrsta val. Sæferðir og Eimskip hafi reynt að standa við samninginn.
„Það er í sjálfu sér ekki fyrsta val að segja samningnum upp. Eimskipsmenn gerðu þennan samning og hafa í sjálfu sér gert sitt til að reyna að standa við hann þótt það hafi gengið eins og menn vita. Það er miklu nærtækara að vinna með viðkomandi aðila í að reyna að breyta stöðunni,“ segir Bergþóra að lokum.