Misrétti, ójöfnuður og því miður fátækt

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Kerfisbundið misrétti viðgengst víða, ójöfnuður er of mikill og hér þrífst því miður fátækt, rétt fyrir framan nefið á okkur. Slíkt á aldrei að viðgangast í íslensku samfélagi!“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar í ræðu sem hann flutti á rafrænum flokkstjórnarfundi í dag.

Hann segir að ekki hafi verið fjárfest nægilega í okkar mikilvægustu stoðum sem þýðir að margt fólk getur ekki sótt sér viðunandi heilbrigðisþjónustu eða hefur ekki efni á að sækja sér menntun við hæfi; og vegir, rafmagns- og fjarskiptainnviðir fullnægja víða ekki öryggiskröfum.

„Það er ekki í lagi, og því viljum við breyta. Til viðbótar bætast við nýjar og risastórar áskoranir, eins og loftslagsógnin og tæknibyltingin. Allt verkefni sem krefjast kjarks og framsýni - markvissra og skapandi lausna. Þess vegna erum við hér, einbeitt í að láta til okkar taka!“

Logi þakkaði fyrir góða leiðsögn sóttvarnaryfirvalda, stórkostleg afrek framlínufólks og samtakamátt almennings sem hefur verið tilbúinn að breyta lífi sínu og færa áður óþekktar fórnir í þágu samfélagsins okkar.

Ríkisstjórnin áttaði sig ekki á eðli kreppunnar

„En það verður að draga skörp skil á milli sóttvarnar þáttar faraldursins – sem leiddur var af færustu sérfræðingum og hins efnahagslega – sem stýrt var af ríkisstjórninni. Og nú er heildarmyndin af efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar síðasta ár farin að skýrast: Hún sýnir okkur að ríkisstjórnin áttaði sig ekki á eðli þessarar kreppu.

Fjármálahrunið 2009 birtist í falli gjaldmiðils – stökkbreyttum lánum – verðbólgu og ekki síst lánsfjárkreppu ríkisins. Við fundum flest fyrir þeirri kreppu með einum eða öðrum hætti. Covíd kreppan skekur hins vegar fyrst og fremst tiltekna hópa. Hún er atvinnukreppa sem bitnar lang harðast á fólki sem misst hefur vinnuna - og fyrirtækjum í afmörkuðum greinum. - Þetta lá fyrir í upphafi og viðbrögð stjórnvalda hefðu frá frá fyrsta degi átt að miðast við þetta – beina aðstoðinni með markvissari hætti til þeirra sem þurftu aðstoð. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar komu seint fram, aðgerðirnar voru tilviljanakenndar og margar komust illa til framkvæmda: Einstaka aðgerðir unnu síðan beinlínis gegn öðrum.

Þannig var langbesta úrræðið, hlutabótaleiðin gelt með uppsagnaleiðinni sem fylgdi í kjölfarið. Í stað þess viðhalda ráðningasambandi og verja afkomu fólks, voru fyrirtækin beinlínis hvött til að segja upp fólki. Þarna opinberaði ríkisstjórnin skilningsleysi sitt á aðstæðum.

Í stað þess að beina nægu fjármagni þangað sem þörfin var mest, til heimila þeirra sem misstu vinnuna, þeirra sem voru þegar í erfiðri stöðu fyrir og lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem urðu fyrir náttúruhamförum – fabúleruðu ráðamenn um hætturnar af því að hækka atvinnuleysisbætur þessa fólks,“ sagði Logi á flokksstjórnarfundinum.

Peningar flæddu inn á fasteigna- og verðbréfamarkaðinn 

Hann sagði að ríkisstjórnin hafi látið Seðlabankanum það eftir að koma peningum í umferð  sem flæddu inn á fasteigna- og verðbréfamarkaðinn, kyntu undir eftirspurn og ýttu upp eignaverði.

„En runnu ekki til þeirra sem þurftu mest á þeim að halda. Það fólk hefur neyðst til að tæma sparnað sinn eða skuldsetja sig til að mæta gríðarlega erfiðum aðstæðum - sem það gat þó hvorki séð fyrir eða bar nokkra ábyrgð á.

Afleiðingarnar eru að þau sem áttu mikið eiga nú ennþá meira.

Fjármálaráðherra hefur áhyggjur af verðbólgu. Og einna helst áhrif launahækkana á verðbólguna –. Hann ræðir minna um einn stærsta áhrifavaldinn á verðbólguna þessa dagana; krónuna. Lönd með örmynt geta ekki leyft sér að auka peningamagn í umferð án þess að nýta þá peninga mjög skynsamlega. Það er ótrúlegt að hlusta á fjármálaráðherra horfa algjörlega fram hjá stærsta áhrifavaldi verðbólgunnar í dag, veikingu krónunnar, en með velþóknun á mörg hundruð milljarða af nýju fjármagni sem fer í örvun fjármálamarkaða, en ekki til hagvaxtarhvetjandi verkefna; innviða, ráðninga á fólki. Það er svona samspil, léleg nýting á fjármagni og of margar krónur í umferð, sem veikja krónuna. Og auka ójöfnuð í landinu.

Þetta er ríkisstjórn sem er sátt við eignabólu og sátt við örmynt. Báðir þættir eru í þágu þeirra fáu, þeirra eignamestu. Ekki í þágu þjóðarinnar. Að sama skapi hefðu stjórnvöld sem skilja eðli ábyrgrar hagstjórnar sett miklu meira púður í opinberar fjárfestingar til að mæta slakanum í hagkerfinu – staðreyndin er að opinber fjárfesting dróst saman um 9,3 prósent í fyrra, í sögulegri kreppu,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, meðal annars í ræðu sinni í morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert