Ný gönguleið á Þingvöllum verður tilbúin til notkunar á næstu vikum og verður svo formlega vígð í byrjun sumars. Mun gönguleiðin þræða svæði sem hefur fengið nokkuð litla athygli gesta hingað til, en þar eru engu að síður minjar frá því Alþingi var sótt forðum daga. Með nýju leiðinni verður til hringtenging í þinghelginni, en ekki síður mikilvægt er að stígurinn verður í nokkuð jafnri hæð og með réttum halla fyrir hjólastóla og veitir þannig betra aðgengi fyrir alla um svæðið.
Gönguleiðin hefur verið nefnd Búðaleiðin, en að sögn Einars Sæmundsen þjóðgarðsvarðar er um að ræða göngustíg sem verður ekki grafinn niður heldur flýtur hann ofan á landinu. Nær stígurinn frá bílastæðinu þar sem Valhöll stóð og þaðan norður meðfram og inn undir Lögberg. Á sama tíma verða gamlir stígar um svæðið aflagðir og græddir upp að sögn Einars.
„Það eru mjög margir sem átta sig ekki á því að þúfurnar sem þeir horfa þarna á eru gamlar búðir þeirra sem sóttu Alþingi áður fyrr,“ segir Einar um svæðið sem göngustígurinn liggur um. Segir hann að því sé um mjög merkilegan stað að ræða og í raun séu þessar þúfur helstu ummerki á svæðinu um að þar hafi fólk komið saman og þingað. „Núna ætlum við að gera þessu hátt undir höfði.“
Stefnt er að því að setja upp 5-6 upplýsingaskilti á stígnum sem munu tengja frásagnir í Íslendingasögum um búðirnar og jarðfræði Þingvalla. Segir Einar að einnig sé verið að skoða möguleika á að gera margmiðlunarefni til að upplýsa gesti enn frekar um sögu svæðisins.
Eins og sjá má á drónamyndinni sem tekin var yfir svæðið fyrr í vikunni stendur vinna við að þekja stíginn yfir. Svæðið sem liggur beggja vegna við stíginn var áður notað undir búðir þeirra sem sóttu Alþingi, en ef rýnt er í svæðið fyrir miðri mynd, vinstra megin við stíginn, má meðal annars greina tvær þústir.
Einar segir að fjær á myndinni, vinstra megin við þar sem þakningu stígsins er lokið, sé í dag mýrarsvæði. Hins vegar hafi rannsóknir með jarðsjármælingum sýnt að þar séu rústir á kafi í mýrinni og þetta sé dæmi um hve miklum breytingum landið sé að taka á Þingvöllum. „Landið hefur þarna sigið og orðið gegnsósa af vatni. Þarna sést sterkt samspil jarðfræði og fornminja,“ segir hann og bætir reyndar við að þetta samspil geri jafnframt skoðun og varðveislu fornminja erfiða.
Stígurinn endar í suðri á bílastæðinu þar sem Valhöll stóð áður. Einar segir að miðað við hvernig búðirnar hafi teygt sig þarna meðfram ánni gætu verið frekari fornminjar þar. „Það mætti ætla að undir bílastæðinu við Valhöll að þar séu mögulega fornleifar,“ segir hann.
Stígurinn var upphaflega hugsaður sem hluti af stærra uppbyggingarverkefni á Þingvöllum og nýju deiliskipulagi fyrir svæðið. Í fyrra var hins vegar sett af stað átaksverkefni stjórnvalda vegna faraldursins um meðal annars uppbyggingu á ferðamannastöðum. Einar segir að göngustígnum hafi því verið kippt fram í forgangsröðinni í samráði við Minjastofnun. Hófst vinna í haust og er hún sem fyrr segir komin langleiðina. Gerir Einar ráð fyrir að stígurinn verði klár á allra næstu vikum og að vígsla muni svo fara fram í byrjun sumars þegar allur frágangur hafi verið kláraður.
Auk stígsins hafa fleiri innviðaverkefni verið í gangi frá því á síðasta ári. Má þar á meðal nefna vinnu við að koma upp 25 nýjum salernum á Þingvallarsvæðinu. Einar segir að frágangur þeirra sé þó ekki að fullu kláraður. Tíu salernum var bætt við uppi á Hakinu og er nú heildarfjöldi salerna þar 40. Þá var komið fyrir 10 salernum við endann á Almannagjá þar sem stóra rútuplanið er. Að lokum voru fimm salerni sett upp við Valhallarreitinn.