Bifreiðar, sem var ólöglega lagt við Laugaveginn, töfðu slökkviliðið á leið í útkall í nótt en dælubíll slökkviliðsins rakst utan í tvær bifreiðar á leið í útkall. Talið var að kviknað hefði í risíbúð við Laugaveginn.
Í öðru tilvikinu þurftu slökkviliðsmenn að stöðva og færa bifreiðina með handafli til að komast leiðar sinnar.
Að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins kom tilkynning um eldsvoðann um fjögurleytið í nótt og fór fjölmennt lið á vettvang enda slíkar tilkynningar teknar alvarlega.
Talsverð brunalykt var á Laugaveginum en í ljós kom að ekki var um eldsvoða að ræða heldur eld í útiarni á svölum risíbúðar við götuna. Var að slokkna í arninum og því ekkert óeðlilegt að fólki hafi brugðið við brunalyktina.
Í færslu á Facebook-síðu slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins kemur fram að þrengingar í miðborginni reynast slökkviliðinu stundum erfiðar en í þessu tilviki hafði bifreiðunum verið ólöglega og um leið illa lagt við Laugaveginn.
Mikið álag er á þeim starfsmönnum sem sinna sjúkraflutningum þessa dagana. Síðasta sólarhringinn var farið í 123 sjúkraflutninga og af þeim voru 40 forgangsflutningar og sex Covid-flutningar.
Boðanir dælubíla voru átta talsins en í þremur tilvikum var útkallið afturkallað.