„Auknar líkur á eldgosi“

Kristín Jónsdóttir, fag­stjóri nátt­úru­vá­r hjá Veður­stof­unni.
Kristín Jónsdóttir, fag­stjóri nátt­úru­vá­r hjá Veður­stof­unni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Á meðan þetta heldur áfram þá eru auknar líkur á eldgosi og það kemur að því að það gefur sig eitthvað þarna,“ segir Kristín Jónsdóttir, fag­stjóri á sviði nátt­úru­vá­r hjá Veður­stof­unni, í samtali við mbl.is.

Harður jarðskjálfti reið yfir klukkan 14.15 undir Suðurstrandavegi um 2,5 km vestur af Nátthaga sem mældist 5,4 að stærð. Er það næststærsti skjálftinn síðan hrinan hófst 24. febrúar. Skömmu síðar, klukkan 14.38 og einni mínútu síðar, urðu tveir skjálftar sem voru 3,4 og 3,7 að stærð.

Á tíma­bil­inu 14.16 til 14.38 mæld­ust þrír skjálft­ar yfir þrír að stærð; 3,1, 3,4 og 3,5, auk þess sem fjöl­marg­ir minni skjálft­ar hafa mælst á þess­um slóðum.

Líkur á að kvikan komi upp á yfirborðið

„Þetta er eitthvað sem við höfum talað um í dálítinn tíma og þetta heldur áfram. Það eru vísbendingar um að það sé stöðugt kvikuinnflæði í þennan gang. Svo erum við að sjá þessi viðbrögð jarðskorpunnar þegar þessir kröftugu skjálftar verða og þeir verða náttúrlega ekki út af engu heldur vegna þess að það er þrýstingur að byggjast upp í kvikuganginum,“ útskýrir Kristín og bætir við:

„Þegar við sjáum þessi merki þá eru auðvitað líkur á því að kvikan komi upp á yfirborðið.“

Svokallaðir gikkskjálftar

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að um svokallaða gikkskjálfta hafi verið að ræða og að mikil virkni sé á svæðinu. Þar segir að skjálfti af stærðinni 4,6 hafi orðið klukkan 12.34 í Nátthaga þar sem talið er að syðri endi kvikugangsins sé.

„Tæpum tveimur klukkustundum síðar færist virknin vestur á bóginn til samræmis við spennubreytingar á stóru svæði í kjölfar staðbundinna þrýstingsbreytinga syðst í kvikuganginum, sem nú er talinn vera á um eins km dýpi í Nátthaga. Slíkir skjálftar hafa verið kallaðir gikkskjálftar.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert