Harður jarðskjálfti

Fagradalsfjall rís fyrir miðju handan Sandfells í forgrunni.
Fagradalsfjall rís fyrir miðju handan Sandfells í forgrunni. mbl.is/Skúli Halldórsson

Harður jarðskjálfti reið yfir fyrir nokkrum mínútum og var væntanlega yfir fimm að stærð. Verið er að lesa úr gögnum jarðskjálftamæla á Veðurstofunni og verður fréttin uppfærð um leið og stærð skjálftans liggur fyrir. 

Skjálftinn reið yfir klukkan 14.15 og er enn verið að reikna stærð skjálftans en fyrsta mat er 5,3. Jarðskjálftinn var við Fagadalsfjall, það er um 2,5 km vestur af Nátthaga. Enginn órói mælist enn á þessum slóðum samkvæmt upplýsingum frá jarðvársviði Veðurstofunnar. 

Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna segir skjálftann hafa verið 5,4 að stærð. 

Jarðskjálftinn sem varð klukk­an 12.34 var fimm að stærð en þessi var að öllum líkindum stærri. 

Jarðskjálftinn fannst mjög vel víða og hristist allt og skalf í Grindavík sem og annars staðar á Reykjanesi. Á höfuðborgarsvæðinu fannst skjálftinn vel og segja lesendur mbl.is að allt hafi leikið á reiðiskjálfi í talsverðan tíma enda virkaði skjálftinn langur. 

Fréttaritari Morgunblaðsins og mbl.is í Skorradal segir að skjálftinn hafi fundist vel þar og þeir skjálftar sem hafa mælst 5,3 eða stærri hafi fundist í dalnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert