66 völdu Þórhildi í 1. sæti

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/Hari

66 greiddu Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur þingmanni Pírata atkvæði í fyrsta sæti á lista Pírata í Suðvesturkjördæmi í rafrænu prófkjöri sem fram fór í síðustu viku og lauk á laugardaginn var. 

Alls greiddi 121 Þórhildi atkvæði sitt sem var atkvæðamest í prófkjörinu og mun því leiða lista pírata í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar í haust. Þórhildur Sunna hlaut 35 atkvæði í annað sæti listans og sjö atkvæði í þriðja sæti. Samtals tóku 138 þátt í prófkjörinu í kjördæminu og voru 10 í framboði. Stuðst er við Schulze-reikniaðferð í prófkjöri Pírata.

Björn Leví Gunnarsson þingmaður varð atkvæðamestur frambjóðenda í Reykjavíkurprófkjöri Pírata sem var sameiginlegt fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmin. Hann mun leiða í Reykjavík suður. 

Á bak við sigur Björns Levís eru 360 atkvæði í heild en 475 tóku þátt í prófkjörinu. Hann hlaut 89 atkvæði í fyrsta sæti, 73 atkvæði í annað sæti og 58 atkvæði í það þriðja. 

Dræm þátttaka í landsbyggðarkjördæmum

Framlengja þurfti prófkjör Pírata í Norðaustur- og Norðvesturkjördæmi þar sem ekki náðist lágmarksfjöldi þátttakenda sem er 100 manns. Í þeim kjördæmum gildir sú regla um prófkjör að náist ekki lágmarksþátttaka innan kjördæmisins skuli prófkjörið framlengt og opnað fyrir alla skráða félagsmenn í Pírötum. Munu úrslit í báðum kjördæmum liggja fyrir næsta laugardag þar sem lágmarksfjölda þátttakenda hefur nú verið náð.

Einungis 42 höfðu greitt atkvæði í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi á laugardaginn og 82 í Norðvesturkjördæmi. 

Sömu reglu um lágmarksfjölda er ekki að finna í framboðsreglum Pírata í Suðurkjördæmi og stóð því prófkjör þeirra þrátt fyrir að aðeins 95 tækju þátt í því. Álfheiður Eymarsdóttir hlaut þar flest atkvæði; alls 88, þar af 49 í fyrsta sæti og 12 í annað sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert