Innra borð Seðlabanka Íslands hefur tekið stakkaskiptum í heimsfaraldrinum og stefnir hraðbyri inn í nútímann. Það sem áður voru lokaðar einstaklingsskrifstofur á löngum göngum verða nú opin og fersk skrifstofurými í takt við tímann.
Þetta hefur í för með sér að rótgrónir starfsmenn bankans missa sínar einkaskrifstofur en að sögn Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á það ekki að koma að sök. Hann segir að vera megi að einhverjum þyki breytingar erfiðar en að yfir höfuð sé mikil ánægja með nýja skipan.
Sagt var frá því í Morgunblaðinu í síðustu viku að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari væri að reyna að sanka að sér gömlum íslenskum húsgögnum í Karphúsið til að milda andrúmsloftið þar í sáttaviðræðum.
Segja mætti að Seðlabankinn sé að reyna hið sama, að milda andrúmsloftið, með því að gera hið gagnstæða, nefnilega að losa sig við gamalt og taka inn nýtt. Seðlabankastjóri gengur svo langt að segja að gömlu innréttingarnar hafi verið „dálítið þunglamalegar“ og að tími hafi verið kominn á uppfærslu.
Um 100 nýir starfsmenn hafa bæst við um 170 manna hópinn sem fyrir var inni í Seðlabanka, enda taldi Fjármálaeftirlitið gamla, sem nú hefur sameinast bankanum, rúmlega 100 starfsmenn.
Upphaflega var hugmyndin að hækka bankann um tvær hæðir til að koma nýju starfsfólki fyrir en Ásgeir vildi fara aðra leið og búa frekar til meira pláss í húsnæði sem var þegar til.
Að sögn Ásgeirs snýst þetta þó ekki aðeins um betri nýtingu á húsnæði. „Það er einnig félagslegt mál að opna rýmið. Þetta gerðist líka allt í Covid og ég held að faraldurinn muni líka breyta hugmyndum fólks um vinnustaði. Teymisvinnan gengur bara betur og það er ekki eins og þetta séu bara opnir geymar, heldur er þetta í hólfum. Og maður er manns gaman,“ segir Ásgeir.
Ekki er von nema fjárhagslegi þáttur framkvæmdanna sé seðlabankastjóra einnig hugleikinn. Hann segir útboð hafa farið fram venju samkvæmt og allar kostnaðaráætlanir staðist.
„Með því að losa okkur við Katrínartúnið, þar sem Fjármálaeftirlitið var, erum við, að ég tel, að ná fram töluverðum langtímasparnaði. Um leið líður fólki betur í húsnæðinu,“ segir hann.
Framkvæmdirnar eru þannig mjög mikilvægur þáttur í sameiningu stofnananna tveggja, sem nú er orðin ein í nýuppgerðu, tímalausu húsi á besta stað.