Ljósleiðari í fámennasta hrepp landsins

Krossneslaug í Árneshreppi býður upp á gæðastund á hjara veraldar. …
Krossneslaug í Árneshreppi býður upp á gæðastund á hjara veraldar. Ótengt ljósleiðaramálum hefur fé fengist til að gera upp sundlaugina. Ljósmynd/Sigrún Sverrisdóttir

Fjarskiptasjóður hefur úthlutað tveimur styrkjum til Árneshrepps til ljósleiðaravæðingar í hreppnum í ár. Þar með liggur fyrir samþykki um lagningu ljósleiðara í þessum fámennasta hreppi landsins og ráðgert er að tæpar 50 milljónir fari í verkefnið.

Sagt er frá þessu á vef bb.is, þar sem haft er eftir oddvita hreppsins að þetta séu mjög góðar fréttir enda hafi verið barist fyrir þessu lengi.

Íbúar í Árneshreppi voru í upphafi síðasta árs 46 talsins. Þar er ekki lengur grunnskóli eftir að Finnbogastaðaskóli í Trékyllisvík hætti starfsemi um árið. Næsti grunnskóli er á Drangsnesi við Steingrímsfjörð.

180 milljónir í ljósleiðara 

Samkvæmt ákvörðun Fjarskiptasjóðs verða 21,3 milljónir veittar til þess að leggja stofnstreng til Djúpavíkur og 25,2 milljónir til áframhaldandi ljósleiðaravæðingar þaðan og norður í Trékyllisvík og þaðan til Norðurfjarðar.

Í þessari lotu samþykkta hjá Fjarskiptasjóði voru samþykkt verkefni í 13 sveitarfélögum að fjárhæð 180 milljónir króna. Réttur fjórðungur heildarfjárhæðarinnar fer til verkefna í Árneshreppi.

Stefna ríkisstjórnarinnar um ljósleiðaravæðingu allra byggðakjarna landsins virðist vera á áætlun, enda á þessum síðustu áföngum hennar að ljúka á þessu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert