Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur færst nær Nátthaga. Undanfarið hefur mest virkni átt upptök sín suðvestan við Fagradalsfjall. Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að virknin hafi færst sunnar og örlítið vestar við Borgarfjall núna yfir helgina.
Tæplega 800 jarðskjálftar nú hafa mælst frá miðnætti. Bjarki segir kvikuganginn halda áfram að stækka. Stærsti skjálftinn frá miðnætti var 3,2 að stærð á öðrum tímanum í nótt.
„Það hefur verið rólegt í alla nótt en svo hefur virkni aukist pínulítið frá klukkan hálfátta en stærsti skjálftinn er bara 2,5 síðan þá. Það er mikil jarðskjálftavirkni, stærðin á skjálftunum er bara ekki mikil,“ sagði Bjarki í samtali við mbl.is laust eftir klukkan átta í morgun.