Landrof vegna ágangs sjávar er farið að ógna byggðalínu Landsnets á Breiðamerkursandi um einn kílómetra austan við Jökulsárlón. Frá einni staurastæðunni sem stendur nú næst hafinu eru einungis um níu metrar að brún rofbakkans.
Bakkinn er 5-6 metra hár og þar fyrir framan er fjaran. Geri mikið sunnanveður er talin hætta á að sjórinn grafi undan stæðunni og þar með er raflínan úti. Sjávarrofið ógnar líka hringveginum en aðeins 20-30 metrar eru frá landrofinu að þjóðveginum þar sem styst er, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Þetta er orðið ískyggilegt að sjá en við erum með vikulegt eftirlit með þessu,“ sagði Nils Gústavsson, framkvæmdastjóri framkvæmda- og rekstrarsviðs Landsnets. „Nú er svo komið, sérstaklega eftir veturinn í fyrra, að landrof er orðið hraðara en við áttum von á. Við ætlum að fara í aðgerðir í sumar eða haust og flytja 10-12 möstur norðar.“
„Við höfum verulegar áhyggjur af þessu,“ sagði G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, vegna hringvegarins austan Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi og sjávarrofsins.