Umgjörð ekki fullnægjandi

Frá því farið var í viðamiklar framkvæmdir í Fossvogsskóla árið …
Frá því farið var í viðamiklar framkvæmdir í Fossvogsskóla árið 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, segist hafa fulla og innilega samúð með foreldrum sem hafa áhyggjur af heilsu barna sinna. Henni þykir miður að sumum foreldrum barna í Fossvogsskóla finnist samskiptum borgarinnar við þá vera ábótavant. Hún segist hafa beitt sér fyrir úrbótum á því.

Borgarráð samþykkti enda á fundi sínum á fimmtudag tillögu meirihluta um að farið verði í sérstakan meginverkferil innan borgarinnar þegar grunur vaknar um hugsanlegar rakaskemmdir í húsnæði á vegum borgarinnar.

„Ég verð auðvitað að treysta sérfræðingum, fulltrúum foreldra og fulltrúum borgarinnar, sem hefur verið falið að fara yfir málið og ákveða næstu skref. Ég fæ að heyra að það sé mygla og það sé ekki mygla, en ég er ekki sérfræðingurinn. Ég get því illa dæmt um það og tel það ekki vera mitt hlutverk. Mitt hlutverk, sem kjörinn fulltrúi, er að tryggja að verkferlar séu góðir og hef beitt mér fyrir því. Þess vegna fagna ég því að þessi tillaga okkar skuli hafa verið samþykkt af borgarráði um myglu- og rakamál til framtíðar,“ segir Dóra Björt. 

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata. Ljósmynd/Aðsend

Greint var frá því í gær, að uppspretta kúlustrýnebbu, svepps skaðlegs mönnum, hljótai að vera í Fossvogsskóla, að mati Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur, doktors í sveppafræði við Náttúrustofnun Íslands. Þetta kom fram í athugasemd hennar við tegundagreiningu myglu í sýnum sem tekin voru 4. desember síðastliðinn í Fossvogsskóla. Sú sýnataka fór fram í kjölfar ítarlegra þrifa á skólahúsnæðinu í október á seinasta ári.

Foreldrar í Fossvogsskóla hafa gagnrýnt samráðsleysi og upplýsingaskort vegna málsins. Á sameiginlegum fundi skólaráðs Fossvogsskóla og annarra kjörinna fulltrúa var því heitið að tekið yrði á upplýsingamálum tengdum myglu í skólanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka