„Ég hef skrifað Francis páfa bréf og skorað á hann að draga til baka umdeilda ákvörðun um að banna blessun sambanda hjá samkynja pörum. Ég hvet hann til þess að taka af skarið gagnvart íhaldssömum öflum í kaþólsku kirkjunni og verja sjálfsögð mannréttindi hinsegin fólks,“ svo hefst Facebook-færsla Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Þar vísar hann til þess að Vatíkanið gaf það út í gær að það muni ekki leggja blessun sína yfir samkynja sambönd. Þá kallar Vatíkanið slíkt form sambanda synd.
Þetta er í annað sinn sem Guðmundur Ingi sendir páfanum bréf.
„Núverandi páfi hefur alltaf slegið mig sem góður og hjartahlýr maður og hann þarf hvatningu okkar og stuðning til góðra verka. Gleymum því aldrei að rödd okkar allra skiptir máli. Gefumst aldrei upp fyrir fordómum og þekkingarleysi,“ skrifar Guðmundur Ingi í færslunni.
Bréf hans má finna hér að neðan.
Yðar heilagleiki, Frans páfi.
Ég skrifa þér frá Íslandi. Ástæða þess að ég skrifa þér er að ég hef alltaf haft trú á þér. Ég held að þú viljir og getir breytt viðhorfum til hinsegin fólks innan sem utan kaþólsku kirkjunnar. Síðustu fréttir eru þó ekki uppörvandi.
Það gerir mig dapran og vonsvikinn að lesa það að kaþólska kirkjan geti ekki lagt blessun sína yfir samkynja sambönd því guð blessi ekki synd. Hvernig getur það verið synd að elska þau sem maður elskar og vilja innsigla það með formlegum hætti? Þetta viðhorf stríðir gegn allri heilbrigðri skynsemi. Skilaboðin sem kaþólska kirkjan sendir með þessu til heimsins eru í senn dapurleg og mannfjandsamleg.
Og, það er í raun enn verra í þessu samhengi að segja að guð geti hins vegar blessað synduga menn og veitt þeim tækifæri til að breytast. Hinsegin fólk er ekki að leitast eftir því að breyta kynhneigð eða kynvitund sinni. Það er nú mergurinn málsins. Við óskum eftir því að vera viðurkennd af samfélaginu sem við sjálf. Í síðasta bréfi mínu til þín minnti ég þig á að kynhneigð fólks er ekki lífsstíll og ekki val. Ekki heldur kynhneigð hinsegin fólks. Kynhneigð er ekki tískufyrirbrigði sem við skiptum út með nýrri vorlínu. Hún bara er.
Maður í þinni stöðu er áhrifavaldur í lífi margra út um allan heim. Orðum þínum og ákvörðunum fylgir því mikil ábyrgð. Ég skora á þig að draga ákvörðun kaþólsku kirkjunnar til baka og standa með hinsegin fólki. Þú getur enn haft afgerandi jákvæð áhrif á viðhorf í garð okkar sem hinsegin eru, innan sem utan kirkjunnar. Finndu kjarkinn í gegnum bænir þínar og stattu með okkur. Með því stendur þú með sjálfsögðum mannréttindum og gætir komið í veg fyrir andúð og hatur á saklausu fólki sem vill bara vera eins og það er.
Ég óska þér alls hins besta,
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.