Kvikuflæði gæti verið að minnka

Björgunarsveitin Þorbjörn hefur haft í nógu að snúast vegna skjálftavirkninnar.
Björgunarsveitin Þorbjörn hefur haft í nógu að snúast vegna skjálftavirkninnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hægt hefur að einhverju leyti á þenslu jarðskorpunnar umhverfis kvikuganginn á Reykjanesskaga undanfarna sólarhringa. Þetta sýna GPS-mælingar Veðurstofunnar.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur hjá stofnuninni á sviði jarðskorpuhreyfinga, segir aðspurður að of snemmt sé þó að fullyrða að hægt hafi á flæði kviku inn í ganginn.

„Þetta eru það litlar breytingar að það er enn ekki hægt að halda neinu fram. Þetta er einn möguleikinn, að kvikuflæðið sé að minnka. En það gætu verið aðrir þættir líka sem valda þessu.“

Annar möguleiki er sá að kvika sé að færast nær yfirborði.

„Þegar við sjáum minni færslur á GPS-mælingum á fjarlægari stöðum þá getur verið að dreifast meira úr kvikuflæðinu. En það er ekki hægt að túlka þessi gögn með þeim hætti enn þá.“

Einn fjölmargra mæla sem nema virkni á svæðinu.
Einn fjölmargra mæla sem nema virkni á svæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þensla þýðir spenna og líkur á skjálftum

Bent var á það í gær að skjálftavirknin hefði færst í norðaustur og nær Keili frá því stóri skjálftinn reið yfir á sunnudag. Nú er eins og dreifst hafi lítillega úr henni undanfarinn sólarhring.

„Við erum aftur farin að sjá skjálfta undir Trölladyngju og eins er svolítið viðvarandi virkni austan við Þorbjörn. Þetta eru sem fyrr gikkskjálftar og við sjáum engin merki um að það sé kvika að flæða þar,“ tekur Benedikt fram.

Engin leið sé að vita hvort virknin muni aukast aftur eða hvort hlé kunni að verða á henni að sinni.

„Það hafa komið svona rólegar hviður og svo hefur þetta tekið sig upp að nýju. Virknin er kannski heldur minni núna en hún var fyrir helgi, en svo kom hún með krafti aftur. Þetta segir okkur því ekkert endilega hvað mun gerast á morgun.“

Á meðan þensla á sér enn stað, heldur spenna áfram að hlaðast upp.

„Ef þenslan heldur áfram þá eykst spennan samhliða því og þá aukast líkur á einhverjum skjálftum og að það beri til tíðinda aftur.“

Stærri hraungos hófust í Kröflueldum árið 1980.
Stærri hraungos hófust í Kröflueldum árið 1980. mbl.is/RAX

Kvikugangar í upphafi Kröfluelda

Bókin Náttúruvá á Íslandi var gefin út árið 2013. Þar segir um Kröfluelda, sem áttu sér stað á árunum 1975-1984, að fleiri en tuttugu gliðnunarhrinur hafi orðið meðan á þeim stóð.

Aðeins hluti þeirra tengdist eldgosum, en flestar hrinurnar tengdust eingöngu kvikutilfærslu neðanjarðar sem leiddu svo til gleikkunar sprungusveims Kröflu, án þess að til eldgoss kæmi.

„Til að byrja með, fyrstu árin, þá voru þetta fyrst og fremst kvikugangar sem voru að myndast. Það var ekki fyrr en á seinni árunum sem það tóku að koma stærri hraungos.“

Flekamótin við Kröflu eru þó annars eðlis en þau sem um ræðir við Fagradalsfjall, og eru þannig mun líkari þeim sem við var að eiga undir Holuhrauni eins og rifjað var upp í gær.

„Enda sáum við að fyrsta innskotið í Kröflueldum gekk mjög hratt fyrir sig og náði alveg norður í Öxarfjörð. Svo stöðvaðist það og það leið heillangur tími þar til næsta innskot kom. Þetta er ekki endilega að haga sér þannig.“

Aðspurður segist Benedikt telja að fullyrða megi að atburðarásin nú sé framhald af þeirri virkni sem hófst við fjallið Þorbjörn í kringum áramótin 2019/2020.

„Það hafa komið nokkur þenslutímabil við Þorbjörn eftir það, ekki eins stór og þetta fyrsta. Þannig ég held að mjög líklega sé þetta hluti af sömu atburðarás. Að við séum að horfa á einhvers konar nýtt tímabil eldvirkni á Reykjanesi. Tíminn verður kannski að leiða það í ljós, en það lítur þannig út.“

Frá Grímsvatnagosi árið 2004. Síðast gaus þar árið 2011.
Frá Grímsvatnagosi árið 2004. Síðast gaus þar árið 2011. mbl.is/RAX

Reyna að sjá þegar kvika kemur upp

Benedikt heldur utan um samfelldar GPS-mælingar Veðurstofunnar og vinnur úr þeim gögnum sem þær gefa af sér.

Fram hefur komið að mælar myndu ekki endilega ná að nema að gos væri hafið, færi svo að kvika næði upp á yfirborðið, rétt eins og þegar gaus í Holuhrauni.

Spurður hvort GPS-mælingar Veðurstofunnar geti þá komið að gagni segir Benedikt:

„Kannski. Við erum að vona það. Við erum að gera tilraun með að skoða úrvinnslu GPS-mælinga í rauntíma í von um að við sjáum þegar kvika kemur upp, þá með einhvers konar aflögunarmerki. En þetta er tilraunastarfsemi og ekki hægt að reiða sig á þetta.“

Þó er til dæmi um einmitt þetta.

„Eftir síðasta Grímsvatnagos þá mátti sjá að það hafði verið mjög sterkt merki, þegar kvika lagði af stað. Það var svona um klukkutíma áður. En það eru aðeins öðruvísi aðstæður þar. Og svo er allt annað að sjá hluti í rauntíma heldur en að sjá þá eftir á. Það er miklu auðveldara að vita þegar hvað gerðist og sjá svo merki um það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert