Ráðherra mun fá heimild til að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli sem ganga munu framar en svæðis-, aðal- og deiliskipulag sveitarfélaga, nái frumvarp samgönguráðherra um heildarendurskoðun laga um loftferðir fram að ganga. Frumvarpið var lagt fram í síðustu viku og er nú til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngunefnd.
Sveitarfélög landsins yrðu þá bundin af því að haga skipulagi á flugvelli og í nágrenni hans í samræmi við skipulagsreglur ráðherra og gert að samrýma skipulagsreglur flugvalla innan fjögurra ára frá því reglur yrðu settar.
Verði frumvarpið að lögum yrði Reykjavíkurborg því í raun svipt skipulagsvaldi á Reykjavíkurflugvelli, nokkuð sem reglulega hefur komið til umræðu innan þingsins. Í gildandi lögum um loftferðir er þegar að finna heimild ráðherra til að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli, en ekki er kveðið á um að reglurnar séu bindandi fyrir sveitarfélög né heldur að þær gangi framar skipulagi þeirra.
Í 146. grein er kveðið á um innihald slíkra skipulagsreglna, en þar segir meðal annars að þær geti falið í sér afmörkun flugvallarsvæðis, hindranaflata og annarra flata sem tengjast flugvellinum og kunna að hafa áhrif á öryggi flugvallar og flugumferðar, svo sem með takmörkun á athafnir fólks og hæð mannvirkja.
Segir að haft skuli samráð við hlutaðeigandi sveitarfélög við setningu reglnanna með það að markmiði að tryggja sem best samræmi milli skipulagsáætlana sveitarfélaga og skipulagsreglna flugvallar.
Í umsögnum Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, þegar frumvarpsdrögin voru í samráðsgátt stjórnvalda, eru athugasemdir gerðar við þessar breytingar. Í umsögn Reykjavíkurborgar segir að þótt skipulagsvald sveitarfélaga sé ekki takmarkalaust sé erfitt að sjá að almennar reglur geti vikið til hliðar lögum.
Samkvæmt réttarhæð réttarheimilda sem gilda samkvæmt íslenskum rétti geti skipulagsreglur ekki vikið til hliðar svæðis-, aðal- og deiliskipulagi sem sett er á grunvelli skipulagslaga, heldur þurfi skipulagsreglur flugvalla alltaf að vera í samræmi við það skipulag sem gildir á hverjum tíma í því sveitarfélagi sem hýsir flugvöll.
Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að huga þurfi mjög vel að samspili lögbundins skipulagshlutverks sveitarfélaga og heimildar ráðherra til setningar skipulagsreglna. „Við setningu skipulagsreglna hlýtur ráðherra að þurfa að taka mið af skipulagi sveitarfélagsins og þar með bregðast við með setningu nýrra reglna, innan ákveðinna tímamarka.“