Engu fórnað fyrir aðra bylgju

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra. mbl.is/Sigurður Unnar

Þessi ákvörðun núna snýr eingöngu að fyrirkomulagi sem hefur verið í gangi í töluverðan tíma er útvíkkað,“ sagði Þórdís Kolbrún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, er hún og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ræddu nýjar ráðstafanir á landamærum í beinu streymi á facebook.

Bæði Bret­um og Banda­ríkja­mönn­um, helstu ferðaþjóðum til Íslands, og öðrum þjóðum utan Schengen-sam­starfs­ins verður kleift að koma til lands­ins á ný hafi þeir gild bólu­efna­vott­orð eða mótefnavottorð vegna kórónuveirusmits.

Áslaug Arna og Þórdís Kolbrún sögðu ákvörðun varðandi litakóðunarkerfi á landamærum, sem tekur gildi 1. maí, allt annað mál og tengdist þessu ekki neitt.

Þórdís Kolbrún benti á að engin sóttvarnarök væru að baki því að hafa mismunandi reglur á milli ferðafólks frá til að mynda Þýskalandi og Bretlandi. Ákvörðunin væri ekki stór út frá sóttvarnasjónarmiði en stór út frá efnahagssjónarmiði.

Getur hraðað viðspyrnunni

Við treystum bólusetningarferlinu og erum að opna fyrir bólusettum,“ sagði Áslaug Arna og benti á að áframhaldandi verkefni snúi að því að bólusetja fólk innanlands. Enn fremur vitnaði hún í orð sóttvarnalæknis um að góð vörn væri í vottorðum. Tryggja þurfi að ekki komi fölsuð vottorð og sérfræðingar greini þau. Áslaug Arna taldi ólíklegt að ferðamenn falsi vottorð en sektir vegna þess séu háar og áhættan einfaldlega of mikil.

„Þetta getur skapað hraðari viðspyrnu og minna atvinnuleysi í sumar. Bólusett fólk er þá að plana ferðir hingað í sumar,“ sagði Áslaug Arna og ítrekaði að ekki stafaði hætta af bólusettum.

Bólusettir eru velkomnir til landsins.
Bólusettir eru velkomnir til landsins. AFP

Bólusett fólk geti eðlilega ferðast milli landa

Við erum ekki að taka einhverja stórkostlega áhættu með því að taka á móti fólki sem er þegar bólusett. Við erum löngu búin að taka þá ákvörðun að treysta vísindunum, það eru komin bóluefni og fólk sem er bólusett getur þá eðlilega farið á milli landa,“ sagði Þórdís Kolbrún og hélt áfram:

„Hversu lengi er hægt að réttlæta það að við séum yfir höfuð með lokuð landamæri þegar við erum búin að bólusetja stærri hóp fólks heldur en nú er en þó ekki alla? Sú ákvörðun hefur ekki verið tekin að við ætlum hér á næstu árum að vera með fullkomlega veirufrítt land. Vonandi verður það þannig að það verði ekki það sama að einhver einstaklingur greinist með Covid eftir 18 mánuði heldur en það var í apríl í fyrra. Það er algjör ógjörningur að bíða eftir því að allir verði bólusettir á Íslandi til þess að taka á móti bólusettu fólki frá útlöndum.“

Ekki festast í gildru ástandsins

Áslaug Arna sagði að með þessu væri ekki verið að fórna einu né neinu fyrir aðra bylgju. Markmiðið fyrir ári síðan hafi verið að vernda viðkvæma hópa og passa að heilbrigðiskerfið réði við álagið. Ekki mætti festast í gildru ástandsins; takmarkana og lítils ferðafrelsis og því væri nauðsynlegt að liðka til eins fljótt og auðið er.

Það er ekki hægt að halda veirunni alfarið fyrir utan eins og við vitum. Það koma enn upp smit og við þurfum að fara að meta áhættuna en skrefið með bólusetningarvottorðin er afar varfærið skref. Það er mjög erfitt að segja að það muni valda aukinni smithættu,“ sagði Áslaug Arna.

Þórdís Kolbrún tók undir þetta og sagði eðlilegt að fólk hefði áhyggjur og enginn vildi taka stór skref til baka. „Fólk vill fara um og njóta sumarsins. Við erum ekki að taka ákvarðanir um einhverjar meiriháttar tilslakanir á landamærum um fólk sem getur komið smitað í landið. Fólk sem er bólusett eða með mótefni er velkomið og það stafar ekki ógn af því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert