Landsréttur staðfesti í dag ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur um að ummæli sem Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Oddný Arnarsdóttir létu falla í tengslum við Hlíðamálið svokallaða skyldu dæmd dauð og ómerk.
Tveir menn stefndu Hildi og Oddnýju fyrir meiðyrði í kjölfar Hlíðamálsins, en þær sökuðu þá um þaulskipulagðar nauðganir í íbúð í Hlíðahverfi í Reykjavík. Héraðsdómur dæmdi Oddnýju til að greiða hvorum manni fyrir sig 220.000 krónur og Hildi 150.000 krónur í héraði.
Landsréttur ákvað þó að lækka þær miskabætur, og var bæði Oddnýju og Hildi gert að greiða hvorum manni fyrir sig 100.000 krónur.
Þá var þeim báðum gert að greiða málskostnað mannanna og ákvað Landsréttur að hann yrði 730.360 krónur á hvorn mann í tilviki Oddnýjar (samtals 1,4 milljónir) og 589.00 krónur í tilviki Hildar (samtals tæpar 1,2 milljónir).
Oddný greiðir því samtals 1,6 milljónir króna og Hildur 1,4 milljónir vegna málsins.
Í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms var efnt til netsöfnunar, undir yfirskriftinni Málfrelsissjóður, á vefsíðunni Karolina Fund í þeim tilgangi að „standa straum af málsvarnarkostnaði og mögulegum skaðabótum sem konur kunna að vera dæmdar til að greiða ef þær tjá sig um kynbundið ofbeldi á opinberum vettvangi,“ að því er segir á síðunni. Fjórar milljónir króna hafa safnast í sjóðinn þegar fréttin er skrifuð.