Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir tilfinninguna góða eftir fund nokkurra ráðherra ríkisstjórnarinnar með almannavörnum, sem haldinn var í Reykjavík í morgun. Helsta áhættan felst í gasi sem myndast á gassvæðinu, sem getur verið hættulegt fólki sem fer að skoða gosið.
„Gasið getur borist hingað og þangað en líka safnast fyrir. Það er því ástæða til að beina því til fólks að fara mjög varlega í öllum ferðum nærri gosinu og sérstaklega gagnvart lautum og gjótum þar sem gasið getur safnast fyrir.“
Önnur spurning er síðan um frekari virkni á svæðinu. „Það er mjög erfitt að spá um það. Það er bara alveg jafnóljóst og áður,“ segir Katrín.
Eldgosið er lítið og rólegt og um það hafa verið hafðar lýsingar á borð við „ræfill“ og „krúttlegt“. Katrín ítrekar þó að fólk verði að vara sig þótt gosið sé lítið. „Eldgos er eldgos. Þetta er ekki eitthvert grín, sko,“ segir Katrín.
Hún heldur áfram: „Við búum auðvitað hérna og erum ýmsu vön. Ég man mjög vel eftir Eyjafjallajökli og Holuhraunsgosinu, sem var náttúrlega mjög stórt og stóð mánuðum saman. En það breytir því ekki að þótt það sé lítið og kannski krúttlegt, þá ber að varast að fara of nærri eldgosi.“
Óljóst er hvert framhaldið verður en ef eldgosið nú markar einfaldlega endalok jarðskjálftahrinunnar sem staðið hefur yfir frá 24. febrúar segir Katrín að þá líði öllum tiltölulega vel með það.
Katrín er á sama máli og ríkislögreglustjóri og nátturuvársérfræðingar á Veðurstofunni um að helsta hættan sé vanbúið fólk á flækingi um svæðið.
„Fólk verður beðið að gæta að sér og fara ekki of nærri. Þetta er einföld eðlisfræði, að gasið er þungt og safnast fyrir og ryður í raun og veru súrefninu út,“ segir Katrín.
Verið er að ráðast í umfangsmeiri mælingar á gasi á svæðinu til þess að fá skýrari mynd af áhættunni af gasi sem dreifist til byggða.