Fólk vanmeti aðstæður við gosstöðvarnar

Talsverður fjöldi fólks hefur lagt leið sína í Geldingadal.
Talsverður fjöldi fólks hefur lagt leið sína í Geldingadal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðstoða þurfti fólk sem farið hafði að Geldingadal til að berja augum eldgosið sem hófst á föstudag. Fjölmargir hafa lagt leið sína suður með sjó, en sumir hafa vanmetið aðstæður að sögn Rögnvaldar Ólafssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns almannavarnadeildar. 

„Það var fólk sem þurfti að hjálpa, var bara orðið örmagna, kalt og blautt. Fólk er kannski svolítið að vanmeta aðstæður þarna. Þetta er töluverð ganga og þetta er útivist. Eins og veðrið er þarna núna er lítið skyggni, þoka og blautt. Ofan í þær aðstæður er auðvelt fyrir óvana að villast í þessum aðstæðum nema þú sért með góð leiðsögutæki með þér. Það eru ekki allir búnir til þess að vera þarna og fólk er aðeins að gleyma sér,“ segir Rögnvaldur. 

Engin talning hefur verið inn á gossvæðið að sögn Rögnvaldar og því sé erfitt að áætla hve margir hafi farið að staðnum í gær og nótt. 

„Í gærkvöldi vorum við að telja um 300 bíla sem voru mannlausir á stöðum þarna í kring sem má áætla að hafi farið á svæðið. Síðan voru um 40 bílar þarna alla vega seint í nótt. Fólk er þarna á ferðinni á öllum tímum sólarhrings, það er vinsælt að fara þarna í ljósaskiptunum á kvöldin. Það er öðruvísi upplifun,“ segir Rögnvaldur. 

Rögnvaldur Ólafsson.
Rögnvaldur Ólafsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sýni gosinu virðingu 

Rögnvaldur segir ekki nóg að tryggja að fólk sé vel búið áður en haldið er af stað. Fólk þurfi einnig að sýna aðgát þegar að gosstöðvunum er komið. 

„Það þarf líka að fara varlega við gosstöðvarnar sjálfar, sýna þessu virðingu. Við þurftum í gær að stugga við fólki sem var komið fullnálægt og komið upp við móbergshrygginn þar sem stóra strýtan er. Það má ekki gleyma að móbergshryggurinn er leifar af eldgosi sem hefur orðið undir vatni eða jökli, það hefur gosið þarna áður og það getur opnast önnur sprunga þarna á svæðinu,“ segir Rögnvaldur og bætir við: 

„Við vitum að þetta er mikið sjónarspil og að fólk vill fara þarna til að horfa á þetta sem er gott og blessað og við erum að reyna að stuðla að því að fólk geti gert það. Á sama tíma biðlum við til fólks að fara varlega og fara eftir leiðbeiningum svo það sé ekki að koma sér í klandur.“

Björg­un­ar­sveit­in Skyggn­ir í Vog­um dreifði í gær rým­ing­ar­borðum sem auðvelda eiga rým­ingu bæj­ar­ins ef til henn­ar kem­ur. 

Rögnvaldur segir að álíka borðum hafi ekki verið dreift annars staðar, svo sem í Grindavík. Þó sé unnið að gerð merkinga ef til rýmingar kemur. 

„Það er verið að vinna merkingar til þess að eiga í Grindavík. Svipað og hefur verið gert á Suðurlandi, svona spjald sem þú setur í gluggann,“ segir Rögnvaldur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert