Fyrst og fremst kosið um efnahagsmál

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Hari

Viðmælendur Egils Helgasonar í Silfrinu í dag voru sammála um að efnahagsmál eigi eftir að skipta mestu máli þegar gengið verður til alþingiskosninga í haust. 

Gestir þáttarins voru Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, Arndís Anna Kristínar Gunnarsdóttir, frambjóðandi Pírata fyrir þingkosningar, og Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Ég held í fyrsta lagi að við séum að nálgast þann tímapunkt að stjórnarskráin verði kosningamál að einhverju leyti, mögulega útlendingamál. En ég held að það verði alltaf fyrst og fremst efnahagsmálin. Við erum að fara að kjósa um framtíðarsýn í kjölfar þessa heimsfaraldurs sem við erum að vinna í að koma okkur út úr,“ sagði Arndís Anna.

„Ég held að eins og venjulega verði þetta sambland af fyrri frammistöðu og framtíðarsýn. Ég held að okkur hafi í öllum aðalatriðum vegnað vel í þessum aðgerðum og viðbrögðum við Covid, bæði varðandi efnahagsaðgerðirnar og sóttvarnaaðgerðirnar. Það verður hins vegar ekki kosið um fyrri frammistöðu nema að litlu leyti heldur verður kosið um þann leiðarvísi sem flokkarnir bjóða fram um hvernig við komum okkur út úr þessu ástandi. Hvaða leið bjóðum við upp á út úr þessu ástandi sem við erum í í dag,“ sagði Páll. 

Rósa Björk tók undir þetta og sagðist gera ráð fyrir því að grænar lausnir í viðspyrnunni eigi eftir að skipta máli. Aðgerðir þurfi að tala inn í framtíðna og það verkefni sem loftslagsvandinn sé fyrir komandi kynslóðir. 

Ólafur sagðist þá vera bjartsýnn á að endurreisn efnahagslífsins geti orðið hröð. Hann segist þó vilja sjá yfirvöld ráðast í fjárfestingarátak, en koma verði í ljós hvort farið verði í frekari uppbyggingu innviða fyrir kosningar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert