Fólk streymir í stríðum straumum á gosstað í Geldingadal í Fagradalsfjalli, eins og sést í myndskeiðinu hér að ofan.
Björgunarsveitarmaður segir óraunhæft að koma í veg fyrir mannaferðir á svæðinu, enda hefðu lokanir í fjallinu allt eins verri afleiðingar, því að þá færi fólk að leita að fjallabaksleiðum.
Í varúðarskyni var nú síðast verið að loka svæði næst gossprungunni vegna hættu á að stærsti gígurinn spryngi og hraunið breytti skyndilega um stefnu.
Enn er þó síður en svo hættulaust fyrir fólk að vera á ferli nálægt gosinu vegna gasmengunar og þess möguleika að ný sprunga opnist skyndilega.
Ógerningur er að loka öllu svæðinu og það myndi raunar aðeins skapa frekari vandræði, að sögn Steinars Þórs Kristinssonar í svæðisstjórn björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík.
„Um leið og þú lokar þeim leiðum sem fólk er að fara í dag vitum við alveg hvað gerist. Fólk fer fram hjá þeim og þá ert þú kominn með allan þennan massa út í hraun. Og hvernig endar það?
Við vitum alveg hvernig mannfólkið er. Ef þú setur lokunarpóst og einhvern langar að sjá það sem er hinum megin við hann, þá finnur hann leið. Þegar það kemur eitthvað upp á hjá fólki sem er að fara einhverja fjallabaksleið þá veigrar það sér jafnvel við að kalla á aðstoð af því að það vill ekki lenda í lögreglumálum.
Sá snjóbolti yrði fljótt stjórnlaus,“ segir Steinar Þór Kristinsson í samtali við mbl.is.
Steinar segir að björgunarsveitin þurfi þegar að vera með mannskap á svæðinu í verkefnið eins og það er núna, en ef það yxi verulega sem afleiðing af lokunum á svæðinu yrði staðan töluvert verri.