Full ástæða til að taka stöðuna alvarlega

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á einum af fjölmörgum upplýsingafundum yfirvalda vegna …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á einum af fjölmörgum upplýsingafundum yfirvalda vegna heimsfaraldurs Covid-19. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur verið í nánum samskiptum við sóttvarnalækni í dag vegna stöðu kórónuveirufaraldursins hér á landi. Formenn ríkisstjórnarflokkanna og heilbrigðisráðherra eiga fund með Þórólfi í fyrramálið.

„Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðunni og taka hana alvarlega. Það er það sem við erum að gera,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Þrjú innanlandssmit greindust utan sóttkvíar um helgina, sem er mikil skyndileg aukning. Fleiri hundruð eru komin í sóttkví eftir að hafa verið í návígi við sýkta og enn hefur ekki tekist að staðsetja uppruna smitanna.

„Við vorum að vonast til þess að hafa náð tökum á þessu hópsmiti sem greindist hér á dögunum en það lítur ekki alveg eins vel út núna. Þess vegna er unnið að því af miklu kappi núna að kortleggja stöðuna,“ segir Katrín.

Fundað með sóttvarnalækni á morgun

Engar tillögur hafa borist ríkisstjórninni frá sóttvarnalækni í dag um hertar takmarkanir innanlands. Formenn ríkisstjórnarflokkanna og heilbrigðisráðherra funda hins vegar með sóttvarnalækni í fyrramálið og kynna síðan niðurstöður fundarins fyrir ríkisstjórn beint á eftir. 

Eftir hádegi á morgun ætti því að mega vænta yfirlýsinga frá stjórnvöldum um næstu skref. Katrín segir þó ekkert á borðinu sem stendur, heldur verði einfaldlega farið yfir stöðuna á morgun.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fyrir utan ríkisstjórnarfund.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fyrir utan ríkisstjórnarfund. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum að sjálfsögðu með áhyggjur af því þegar við sjáum smit koma upp utan sóttkvíar, því þá er þetta fólk sem hefur verið að hitta fleiri. Þetta er stór hópur sem er kominn í sóttkví.“

Hefur trú á Íslendingum 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur stundum rætt það í fjölmiðlum að hann telji að ákveðnar sóttvarnaaðgerðir á ákveðnum tímapunktum geti verið þess eðlis að Íslendingar myndu einfaldlega ekki sætta sig við þær, jafnvel þó að stjórnvöld gripu til þeirra.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forsætisráðherra kveðst ekki hafa sömu áhyggjur ef grípa þyrfti til aðgerða núna.

„Við höfum verið með aðgerðir hér í rúmt ár og íslenskur almenningur hefur sýnt þeim einstakan stuðning og hefur staðið sig ótrúlega vel í að berjast gegn veirunni. Þannig að ég hef engar áhyggjur af íslenskum almenningi,“ segir Katrín. „Hér eftir sem hingað til þurfum við að taka þær ákvarðanir sem þarf til að tryggja að við verndum líf og heilsu fólks.“

Langt í hjarðónæmi

Um 10% þjóðarinnar hafa verið bólusett með fyrsta skammti af bóluefni og langt er í land með hjarðónæmi, sem er talið vera 60-70% hlutfall þjóðarinnar. AstraZeneca hefur enn ekki verið tekið aftur í notkun, enda þótt Lyfjastofnun Evrópu hafi gefið grænt ljós.

Katrín segir að það mál sé til skoðunar og niðurstaða fáist á allra næstu dögum.

„Ég hef væntingar um að bólusetningin muni ganga hraðar á öðrum ársfjórðungi en auðvitað hefur komið snurða á þráðinn í framleiðslunni og svo með þessar aukaverkanir,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert