Nemendur áttunda bekkjar í Norðlingaskóla auk tólf starfsmanna eru komnir í sóttkví vegna smits hjá nemanda við skólann. Aðalbjörg Ingadóttir skólastjóri segir að nemandinn hafi greinst með Covid-19 í gær.
Hún segir að hringt hafi verið í skólastjórnendur í gærkvöldi þegar ljóst var að nemandi var smitaður en hann var ekki í sóttkví.
Samkvæmt heimildum mbl.is tengist smitið í Norðlingaskóla smitinu í Laugarnesskóla og smituðum leikmanni Fylkis í knattspyrnu karla.
Skólafélagar og starfsfólk eru í sóttkví fram á föstudag og losna úr henni gegn neikvæðri niðurstöðu skimunar en þá verður vika liðin síðan nemandinn kom síðast í skólann. Aðalbjörg segir ákvörðun um aðgerðir hafa verið tekna í samráði við smitrakningarteymið.