Heppin ef ekki skellur á ný bylgja

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir að 400 sýni hafi verið greind hjá Landspítala í dag en ekkert greinst jákvætt fyrir Covid-19 hingað til. Enn er eftir að greina 600 sýni.

Kári hefur áhyggjur af stöðunni innanlands og segir ljóst að ef staðan er eins slæm og hún virðist vera þurfi að bregðast hart við og grípa til þeirra ráðstafana sem vitað er að virka.

„Manni finnst eins og veiran sé búin að finnast nægilega víða í samfélaginu til að við þyrftum að vera ótrúlega heppin til þess að hér skylli ekki á einhvers konar bylgja. En hve stór hún verður veit ég ekki,“ segir Kári í samtali við mbl.is.

Sjö greindust innanlands um helgina og af þeim voru þrír ekki í sóttkví. Almannavarnir tala um að blikur séu á lofti.

Vonar að hann hafi rangt fyrir sér

Kári bendir á að þær sýkingar sem greinst hafa um helgina virðist mega rekja til þeirra sem greindust hér í litlu hópsýkingunni fyrir tveimur vikum. „Þetta er því byrjað að teiknast upp eins og þetta hafi haldið áfram að breiðast út hægt og rólega,“ segir Kári.

Að sögn Kára er það eðli pestarinnar að breiðast út með þessum hætti. Fyrst hægt og svo er útbreiðslan áður en menn vita af orðin ofboðsleg, eins og kynni að vera raunin nú.

„Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér og að við séum svo ótrúlega heppin að þetta breiðist ekki víðar út. En þar sem ég hef 72 ára þjálfun að baki í því að byggja upp hjá mér kvíða get ég sagt að ég er býsna kvíðinn yfir þessu núna,“ segir Kári.

Enn er ekki komið í ljós með óyggjandi hætti hvort brasilíska afbrigðið hafi hreiðrað um sig hér á landi og segir Kári Þórólf vin sinn betur hefðu beðið til morguns með yfirlýsingar um það, enda liggi raðgreining ekki fyrir.

Breyting á landamærum ekki æskileg

Kári kveðst óánægður með reglugerð dómsmálaráðherra um að heimila bólusetningarskírteini utan Schengen-svæðisins en segist þó vita að allir séu að reyna að gera sitt besta.

Hann telur að Íslendingar eigi að nýta þá sérstöðu að geta lokað landamærunum.

„Ég tel að staðan sé nægilega ógnvekjandi núna til þess að við getum haldið að okkur höndum þar til bólusetningar eru komnar lengra,“ segir Kári.

Ánægður með forsætis- og heilbrigðisráðherra

Í bólusetningarmálum segir hann ríkisstjórnina hafa staðið sig vel.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Það var eðlilegt og sjálfsagt og skynsamlegt að fara í samflot með hinum Norðurlandaþjóðunum og ESB en það er næstum því eins óskynsamlegt og það getur verið af Svandísi og Katrínu að axla að einhverju leyti ábyrgð á því hve illa Evrópusambandið stendur sig. Þær gerðu allt rétt og hafa alveg efni á að gagnrýna ESB svolítið.“

Svandís Svavarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir hafi þannig ekki átt að gefa færi á þeirri gagnrýni sem beinst hefur að þeim vegna bresta í afhendingu á bóluefni. „Gagnrýnin er enda ósanngjörn og þær bera enga ábyrgð á þessu. Ríkisstjórnin hefur staðið sig alveg ofboðslega vel fram að þessu,“ segir Kári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert