Skuldasöfnun heldur áfram til ársloka 2025

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt fjármálaætlun ríkissjóðs til næstu fimm ára er gert ráð fyrir því að skuldastaða ríkisins muni aukast til muna og fara upp í 54% af landsframleiðslu árið 2025. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði aðeins 2,5%, en að hann taki vel við sér á næsta ári og verði 4,8% og svo 3,8% árið 2023. Samkvæmt spánni, sem nær til áranna 2022-2026, verður landsframleiðslan enn 130 milljörðum króna lægri árið 2024 en ef ekki hefði komið til faraldursins ef miðað er við spár frá því í ársbyrjun ársins 2020.

Fjármálaáætlunin var kynnt af Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra í dag, en þar má meðal annars sjá að gert sé ráð fyrir 223 milljarða halla árið 2022, 151 milljarðs halla árið 2023, 97 milljarða halla árið 2024 og 59 milljarða halla árið 2025. Er það samtals halli upp á 530 milljarða á næstu fjórum árum, en til samanburðar er áætlað að halli síðasta árs hafi verið 196 milljarðar og fjárlög þessa árs gera ráð fyrir 320 milljarða halla, en það er 10,2% af landsframleiðslu. Uppsafnaður halli ársins 2020 til 2025, yfir sex ára tímabil, gæti samkvæmt þessari spá því orðið 1.046 milljarðar.

Bjarni sagði að útlit væri fyrir að það tækist að komast yfir núllið fyrir árslok 2025. Þar er átt við að koma frumjöfnuði, eða skuldahækkun sem hlutfalli af landsframleiðslu, yfir núllið. Áfram er þó gert ráð fyrir að skuldir ríkisins aukist árið 2026 um 59 milljarða, en það er vegna neikvæðs vaxtajöfnuðar.

Batnandi afkoma frá fyrri spám

Þrátt fyrir háar tölur hefur útlitið fyrir þetta ár batnað frá því sem áður var. Þannig var áður gert ráð fyrir að afkoman yrði neikvæð um 10,6% af landsframleiðslu. Þá var afkoma síðasta árs talsvert betri en spáð hafði verið fyrir um og er gert ráð fyrir að hallinn verði um 70 milljörðum minni. Þá hafði áður verið gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs myndu hæst fara í 60% af landsframleiðslu árið 2025, en sem fyrr segir er nú gert ráð fyrir að hlutfallið verði 54%.

Fram kom í kynningu Bjarna að horfur á betri afkomu feli í sér að þörfin á aðhaldsaðgerðum, til að ná markmiði um stöðvun skuldasöfnunar fyrir lok ársins 2025, minnkar um fimmtung og verður 102 milljarðar.

Samkvæmt áætluninni verður tímabundnum stuðningi við hagkerfið haldið áfram eftir því sem þörf er á, þar til það hefur tekið nægilega við sér að nýju. Markmiðið er hins vegar að draga hratt úr sértækum stuðningsaðgerðum á árinu 2022, samhliða því sem fyrirtækin geta í auknum mæli staðið á eigin fótum á ný.

Ferðamenn 720 þúsund í ár og atvinnuleysi niður í 4-5% árið 2026

Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir að ferðamenn verði 720 þúsund í ár, en það er um 50% fjölgun frá síðasta ári. Þá er áætlað að atvinnuleysi muni minnka og verði komið niður í 4-5% í lok áætlunartímabilsins.

Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi við lok áætlunartímabilsins verði á bilinu 4-5%. Því til viðbótar voru nýverið kynntar umfangsmiklar aðgerðir til að skapa störf sem sérstaklega er beint að þeim sem hafa verið án atvinnu í lengri tíma, en með aðgerðunum er gert ráð fyrir að skapa um 7.000 störf út árið 2021.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka