Bólusettur farþegi með veiruna í nefkoki

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun. mbl.is/Arnþór

Fyrir nokkrum dögum greindist bólusettur farþegi sem kom hingað til lands með kórónuveiruna í nefkoki. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt til við heilbrigðisráðherra að fólk sem kemur hingað til lands með vottorð um bólusetningu gegn Covid-19 eða fyrri sýkingu verði skimað einu sinni við komuna. Heilbrigðisráðherra hefur ekki tekið afstöðu til tillögunnar.

Í dag er fólk sem kemur með vottorð um bólusetningu eða fyrri sýkingu ekki skimað við komuna til landsins. 

„Þó að ólíklegt sé talið að bólusettir einstaklingar og þeir sem sýkst hafa af Covid beri með sér veiruna þá hafa rannsóknir ekki sýnt það óyggjandi enn sem komið er. Þetta fyrirkomulag mun hjálpa við að skera úr um þetta atriði og á sama tíma lágmarka áhættuna á að veiran berist hingað til lands. Þetta er sérstaklega mikilvægt á þessari stundu þar sem faraldurinn er í miklum vexti víðast hvar og ný afbrigði veirunnar eru að koma fram. Á þessari stundu er óljóst hvort þessi nýju afbrigði sleppi undan vörnum núverandi bóluefna eða fyrri sýkinga,“ segir í minnisblaði Þórólfs.

Spurður um þær aðgerðir sem hann hefur lagt til á landamærum, og heilbrigðisráðherra samþykkt að hluta, segir Þórólfur ekki telja að um hertar aðgerðir sé að ræða heldur sé einungis verið að skerpa á þeim aðgerðum sem eru til staðar nú þegar í því skyni að hindra það að smit komist inn í landið. 

Leggur til að tímabundið verði einungis tekið við vottorðum frá EES, Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada

Í minnisblaði Þórólfs er einnig lagt til að tímabundið verði einungis tekin gild vottorð um fyrri sýkingu eða bólusetningarvottorð frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins, Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada.

„Einnig er lagt til að allir skuli sæta einni sýnatöku við komuna til landsins, óháð því hvort þeir séu með gild vottorð um fyrri sýkingu eða bólusetningu. Heilbrigðisráðherra hefur ekki tekið afstöðu til þessara tillagna og verða þær ræddar í ráðherranefnd og ríkisstjórn í vikunni,“ segir á vef ráðuneytisins um málið.

Eins og greint var frá fyrr í dag samþykkti rík­is­stjórn­in á fundi sín­um í morg­un að skylda fólk sem kem­ur til lands­ins frá ákveðnum svæðum í sótt­varna­hús við kom­una til lands­ins. Einnig samþykkti rík­is­stjórn­in að taka upp skimun barna, sem fædd eru árið 2005 og síðar, við landa­mær­in. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert