Í það minnsta fimmtán greindust smitaðir af kórónuveirunni innanlands í gær, að sögn Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Hann telur þörf á að loka „öllu“, líkamsræktarstöðvum, sundlaugum, hárgreiðslustofum o.s.frv.
Boðað var til aukaupplýsingafundar vegna stöðunnar á faraldrinum í dag en klukkan rétt rúmlega tíu var hætt við fundinn.
„Ég held að við séum komin á þann stað að við verðum að loka öllu núna, einfaldlega öllu,“ segir Kári.
Spurður hvort hann eigi þar við líkamsræktarstöðvar, sundlaugar, hárgreiðslustofur og sambærilega starfsemi jánkar Kári því.
Vísir greindi fyrst frá fjölda innanlandssmita.
Nokkur innanlandssmit greindust utan sóttkvíar á föstudag og um helgina. Þá greindist eitt smit á mánudag innan sóttkvíar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt að um samfélagslegt smit sé að ræða. Þá er útlit fyrir að rót smitanna sé enn óþekkt í einhverjum tilvikum.
Núverandi takmörkun á samkomum vegna farsóttar gildir til og með 9. apríl. Þórólfur hefur þó sagt að mögulega verði gerðar breytingar þar á vegna þróunar faraldursins.
Fréttin verður uppfærð