Rannsóknir erlendis hafa sýnt að breska afbrigði kórónuveirunnar er mun meira smitandi en flest önnur afbrigði og norskar rannsóknir sýna að spítalainnlagnir eru meira en tvöfalt algengari hjá öllum aldurshópum, einnig hjá börnum eldri en sex ára.
Þetta kemur fram í minnisblaði sóttvarnalæknis um hertar takmarkanir til að stöðva útbreiðslu veirunnar.
Þar segir að töluverð samfélagsleg útbreiðsla hafi orðið á breska afbrigðinu hér á landi og nefnt að síðustu þrjár vikur hafi komið upp þrjár hópsýkingar innanlands, allar á höfuðborgarsvæðinu, vegna breska afbrigðisins.
Síðustu daga hefur smitrakning sýnt að um 200 til 300 manns hafi verið útsettir fyrir veirunni síðastliðna viku.
„Raðgreining hefur tengt tvo hópsmitin saman þar sem uppruninn virðist kominn frá einstaklingi sem greindist á landamærunum. Uppruna þriðju hópsýkingarinnar er hins vegar ekki hægt að rekja,“ segir í minnisblaðinu.
„Samkvæmt reynslu okkar hér á Íslandi af fyrri bylgjum Covid-19, sérstaklega þriðju bylgju sl. haust, þá er nauðsynlegt að bregðast við núverandi sýkingum hratt og af festu ef takast á að koma í veg fyrir fjórðu bylgju faraldursins,“ segir í minnisblaðinu.