Kári: „Annað í þessu sem má ekki ræða“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Skjáskot/Kastljós

„Þeir einstaklingar sem greindust núna yfir helgina voru með veiru sem við getum ekki rakið til neinna. Það bendir til þess að veiran hafi laumað sér inn í landið með einstaklingi sem við misstum einhvern veginn af.“

Þetta sagði Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í Kastljósi Ríkisútvarpsins í kvöld, þegar rætt var um landamæraeftirlit og rakningu smita á Íslandi.

Koma sýktir frá Austur-Evrópu

„Svo er annað í þessu sem má ekki ræða, sem er svolítið erfitt,“ sagði Kári svo.

„Mjög stór hundraðshluti þeirra sem koma hingað sýktir koma frá Austur-Evrópu. Býsna stór hundraðshluti þeirra hefur búsetu á Íslandi, en eru nú atvinnulausir og koma hingað til þess að fá atvinnuleysisbætur með reglulegu millibili, og fara síðan heim til sín.“

„Ástæðan fyrir því að það er erfitt að tala um þetta er sú að það er svo stutt milli þess að segja þetta, og einhvers konar útlendingaandúðar, sem er óásættanleg,“ sagði hann.

„En þetta er bara staðreynd, svona líta tölurnar út, og við verðum að finna einhverja leið til að takast á við það.“

Þáttur kvöldsins var helgaður hertum samkomutakmörkunum, sem ríkisstjórnin kynnti á blaðamannafundi í dag, og var Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir gestur þáttarins ásamt Kára.

Leikskólum verði lokað

Þá segist Kári vilja loka leikskólum, en það er eina skólastigið sem enn er opið.

„Þetta eru umfangsmiklar aðgerðir. Við erum að leggja allt samfélagið að veði til að ná utan um þessa bylgju,“ sagði hann.

„Þess vegna er ég svolítið ósáttur við það að við skulum halda leikskólum opnum. Vegna þess að þó svo að börn smitist síður en fullorðnir, þá smitast þau samt. Þó þau verði minna lasin, þá verða þau samt lasin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka