Dæmd fyrir stórfelldan fíkniefnainnflutning

Fólkið var stöðvað af tollvörðum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Fólkið var stöðvað af tollvörðum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jose Iovaisha Xaire Morales og Estefania Estepa Sanchez, spænskur ríkisborgari, voru í gær dæmd til fangelsisvistar af Héraðsdómi Reykjaness fyrir stórfelldan innflutning á hassi, MDMA, LSD og metamfetamíni. Jose hlaut tveggja ára dóm og Estefania 18 mánuði.

Þeim var gert að sæta upptöku 4.832 gramma af hassi, 5.087 stykkjum af MDMA-töflum, 100 stykkjum af LSD-töflum og 255 grömmum af metamfetamíni.

Forsaga málsins er sú að Estefania var stöðvuð af tollvörðum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 19. desember sl. þegar hún var að koma frá Stokkhólmi með flugi Icelandair. Við skoðun á farangri hennar fundust tveir jólapakkar með hassi í sem og lofttæmdar umbúðir með MDMA-töflum, sem saumaðar voru inn í úlpu, tösku hennar.

Daginn eftir, þann 20. desember sl., kom Jose til Íslands með flugi Icelandair frá Kaupmannahöfn ásamt annarri konu, sem einnig er spænskur ríkisborgari, og voru þau einnig stöðvuð. Við líkamsleit á konunni fundust fíkniefni í nærbuxum hennar auk þess sem hún afhenti smokk með fíkniefnum í sem hún hafi geymt í leggöngum sínum. Hún var einnig ákærð en hennar þáttur var skilinn frá þessu máli.

Konan sagði að Jose ætti fíkniefnin og hann hefði neytt hana til að flytja fíkniefnin til Íslands. Jose hefur búið hér á landi í fjögur ár.

Jose viðurkenndi afdráttarlaust að hafa flutt inn fíkniefnin og kvaðst hafa gert það að beiðni annars manns. Sá maður hefði skipulagt og fjármagnað innflutninginn. Mennirnir kynntust hér á landi árið 2016 og Jose taldi hann ekki hættulegan í fyrstu en við skýrslutöku sagðist hann hafa skipt um skoðun.

Estefania neitaði sök og kvaðst ekki hafa vitað að fíkniefnin væru í farangri hennar. Henni hafi verið boðið til Amsterdam af A en þar hafði hann boðið henni glaðning, þ.e. farmiða til Íslands. Framburður hennar var ekki talinn trúverðugur.

Dómurinn í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert