Talsverð brögð eru að því að fólk sé sótt á Keflavíkurflugvöll í einkabíl, jafnvel þótt fimm daga sóttkví sé skyldubundin fyrir alla sem koma inn í landið án þess að hafa þegar fengið Covid-19 eða bólusetningu.
Þegar stigið er inn í einkabíl með öðrum farþega er í mörgum tilvikum óhjákvæmilegt að sóttkvíin sé þar með rofin.
Oddur Gunnarsson Bauer, sem starfar hjá ISAVIA á Keflavíkurflugvelli, hefur fylgst með því undanfarið að mikill fjöldi fólks er sóttur á flugvöllinn. Hann skýtur á að það sé um helmingur farþega sem kemur til landsins.
„Þetta er einbeittur brotavilji,“ segir Oddur og er það einkar augljóst þar sem fólk fer afsíðis við komuna til að fara upp í bílinn þar. Við komuhliðið eru verðir sem fylgjast með fólki en þeir missa vitaskuld sjónar á því þegar það er komið út úr húsinu. Handan við hornið bíða þess vinir eða ættingjar sem taka það upp í bílinn.
„Fólk virðist vera óhæft til að fylgja reglunum,“ segir Oddur. Ýmsar leiðir eru færar til að liðka fyrir heimferð fólks án þess að brjóta sóttvarnalög. Hægt er að fara á tveimur bílum og skilja annan eftir fyrir þann sem er að koma og svo getur hann farið í rútu, sem boðið er upp á á vellinum.
Í myndbandinu að ofan má sjá Gísla Gíslason bílstjóra fylgjast með fólki í nágrenni við flugvöllinn.
Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum, segir þessa hegðun vissulega vanda, en það sé þó alls ekki þannig að allir sem eru að sækja á völlinn séu að gera eittthvað rangt.
Margir séu bólusettir sem komi að sækja, búnir að fá veiruna eða jafnvel á leið í sumarbústað í sóttkví með viðkomandi. Svo skilji æ fleiri eftir bíla.
„Svo er eitthvað inn á milli sem er ekki í lagi og það er svo sem áhyggjuefni,“ segir Sigurgeir. „Við vitum af þessu og reynum okkar besta en okkar aðgerðir á svæðinu hafa líka sýnt okkur að það er ekki allt sem sýnist,“ segir hann og útskýrir að lögregla sé bæði stödd í flugstöðinni og úti á bílastæðum til að hamra á reglunum.
Sigurgeir kveðst hafa orðið var við að fólk fari afsíðis til að fara upp í bíla og hann segir ljóst að þar gæti verið um að ræða mál þar sem ekki er verið að fylgja reglum.