Sigurður Bogi Sævarsson
Í skoðun er að eldgosasýningar í anda Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal verði á næstu misserum og árum opnaðar á eldgosaeynni Havaí í Kyrrahafi, í Japan og á öðrum heitum reitum í heiminum. Þar væri uppbygging sýningarinnar sérsniðin að eldvirkninni og aðstæðum á hverjum stað.
Áhugi á náttúru landsins sem eldgosið í Fagradalsfjalli hefur skapað birtist með ýmsu móti og segjast eigendur sýningarinnar í Vík finna fyrir því með fjölgun heimsókna á heimasíðu fyrirtækisins.
„Við höfum fundið aukinn áhuga á hraunsýningunni alveg frá því jarðskjálftahrinan við Grindavík hófst. Sérstaklega jókst þetta með eldgosinu,“ segir Júlíus Ingi Jónsson í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Þau Ragnhildur Ágústsdóttir eiginkona hans opnuðu sýninguna Icelandic Lava Show haustið 2018 þar sem þau endurskapa aðstæður eldgoss með því að bræða hraun frá Kötlu og hella því inn í sýningarsal, sem er fullur af fólki. Síðan þau opnuðu hefur ekkert raunverulegt eldgos orðið á Íslandi, fyrr en nú.