Gleðin leynir sér ekki

Ingi Björn Ingason.
Ingi Björn Ingason. Ljósmynd/Mummi Lú

Síðasti þátturinn í seríunni „Það er komin Helgi“ í Sjónvarpi Símans verður í kvöld en liðlega ár er síðan Helgi Björns og Reiðmenn vindanna hófu að létta landsmönnum lund með vikulegum skemmtiþáttum.

„Ferlið hefur verið mjög lærdómsríkt og það er gefandi að fara svona í gegnum íslenska tónlist,“ segir Ingi Björn Ingason, bassaleikari bandsins.

Fótboltagenið er ríkt í fjölskyldunni og Ingi Björn fetaði í fótspor föður síns og nafna sem og afans Alberts Guðmundssonar, en sneri sér síðan alfarið að tónlistinni á unglingsárunum. „Ætli það hafi ekki verið miðjubarnssyndrómið, einhver uppreisn,“ segir Ingi um valið. Hljóðupptökur og tónlistarmyndbönd með tónlistarfólki eins og Bítlunum og Led Zeppelin hafi kveikt elda sem og vinsælustu rokkböndin á umræddum tíma. „Bassagítarinn heillaði mig strax, spilagleðin í bassaleikurum eins og Cliff Burton heitnum í Metallica, Paul McCartney í Bítlunum og Glen Hughes í Deep Purple höfðaði til mín enda allt mjög líflegir menn.“ Hann hafi hlustað á alla tónlist og ýmsar öfgar hrifið sig en rokkið á sjöunda og áttunda áratugnum hafi alltaf togað mest í, að því er hann segir í Morgunblaðinu í dag.

Ingi fór ekki í stíft tónlistarnám fyrr en hann var 24 ára en fram að því hafði hann fikrað sig áfram sjálfur og farið á eitt og eitt námskeið. Eftir fjögurra ára háskólanám í skóla sem Paul McCartney stofnaði í Liverpool á Englandi útskrifaðist hann með BA-gráðu 2006. Hann gerðist samt hvorki stuðningsmaður Liverpool né Everton í boltanum. „Til að forðast áflog fannst mér öruggast að segja að ég héldi með litla liðinu Tranmere og fékk þá létt klapp á öxlina.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert