Helgi Bjarnason
Alls höfðu 112 skráð sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustu um hádegið í gær. Flestir eru sjúkraliðar, læknar, hjúkrunarfræðingar eða sjúkraflutningamenn. Margir hafa komið áður til starfa sem bakverðir.
Heilbrigðisráðuneytið hóf fyrr í vikunni að skrá að nýju fólk sem tilbúið er að koma tímabundið til starfa í heilbrigðisþjónustu og með skömmum fyrirvara. Skráning í bakvarðasveitina hófst á ný 24. mars, eftir að fjórða bylgja kórónuveirufaraldursins fór að gera vart við sig. Þeir sem áður höfðu skráð sig, til dæmis í bylgjunum á síðasta ári, þurfa að skrá sig á nýjan leik. Hægt er að skrá sig rafrænt á vef heilbrigðisráðuneytisins.
Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu höfðu 112 skráð sig í bakvarðasveitina á hádegi í gær. Þar af hafa 94 gild starfsleyfi en 18 eru nemar á ýmsum stigum. Í faglærða hópnum eru 26 sjúkraliðar, 16 læknar, 15 hjúkrunarfræðingar og 15 sjúkraflutningamenn. Færri eru úr öðrum starfsstéttum.
Mikill meirihluti fólksins treystir sér til að sinna sjúklingum veikum af Covid-19 og flestir vilja helst vinna á Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.