Óskar Páll Sveinsson kvikmyndagerðarmaður hélt að eldgosinu í Geldingadölum á þriðjudaginn var og náði þar mögnuðum skotum af gosinu og umhverfinu í kring.
Rétt áður Óskar lagði í hann byrjaði að snjóa hressilega sem bjó til fallegan bakgrunn í fjallstoppana á móti svörtu hrauninu.
„Það var ekki annað hægt en að taka nokkur skot og reyna að fanga þessa mögnuðu birtu. Það er erfitt að lýsa þessari mögnuðu upplifun að komast svona nálægt eldgosi, en kannski ná þessi myndskeið að skila smá stemningu,“ segir Óskar Páll.
Óskar Páll Sveinsson er ekki óvanur að taka upp í krefjandi aðstæðum en hann gerði heimildamyndina Á móti straumnum um Veigu Grétarsdóttur og ferðalag hennar kringum landið á kajak.