Grípa til markvissra aðgerða eftir þörfum

„Við erum að fylgjast mjög gaumgæfilega með lýðheilsu og erum …
„Við erum að fylgjast mjög gaumgæfilega með lýðheilsu og erum með mjög marga þætti sem við fylgjumst með mánuð fyrir mánuð,“ Alma D. Möller landlæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir að ný bylgja kórónuveirufaraldursins sé farin af stað hérlendis halda bólusetningar áfram og með frekari bólusetningum eykst vonin um að faraldrinum ljúki innan tíðar. Embætti landlæknis fylgist gaumgæfilega með lýðheilsu landans en hefur ekki tekið ákvarðanir um aðgerðir sem farið verður í til þess að efla hana eftir að faraldrinum lýkur. Gripið verður til markvissra aðgerða í þeim efnum eftir þörfum, að sögn Ölmu D. Möller landlæknis.

„Við vitum að faraldurinn hefur gengið mjög vel heilt yfir hérna og áhrifin á lýðheilsu verið minni en víða annars staðar en við vitum líka að faraldurinn hittir mismunandi hópa mismunandi fyrir. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því þannig að stjórnvöld geti þá beint aðgerðum í rétta farvegi,“ segir Alma í samtali við mbl.is.

„Við erum að fylgjast mjög gaumgæfilega með lýðheilsu og erum með mjög marga þætti sem við fylgjumst með mánuð fyrir mánuð. Síðan er búið að stofna það sem heitir lýðheilsuvakt sem er hópur bæði úr heilbrigðiskerfinu og frá öðrum stofnunum eins og félagsmálaráðuneytinu og víðar að. Sá hópur er að skoða lýðheilsuna mjög vítt. Síðan þegar búið er að rýna þau gögn er hægt að fara í aðgerðir ef þarf.“

Þetta á allt að vera á réttri leið“

Bólusetning með bóluefni AstraZeneca var heimiluð að nýju í vikunni, eftir um tveggja vikna hlé á notkun efnisins. Gripið var til hlésins vegna ótta um að myndun blóðtappa hjá bólusettum tengdist bólusetningunni. Orsakasamhengi er nú talið ólíklegt, en tilkynningar um slíkar mögulegar aukaverkanir komu einungis frá yngra fólki. Notkun þess var því heimiluð fyrir 70 ára og eldri. Áður en hléið var gert hafði Landspítali ætlað að ljúka bólusetningu síns starfsfólks með bóluefni AstraZeneca. Nú mun spítalinn fá annað bóluefni í stað bóluefnis frá AstraZeneca til þess að ljúka bólusetningu innan stofnunarinnar. Um það segir Alma:

„Það er búið að ákveða að nota bóluefni AstraZeneca gegn Covid hjá eldra fólki eftir að nýjar upplýsingar komu fram. Þá losnar um annað bóluefni sem verður hægt að nota, til dæmis við bólusetningar á Landspítala. Þetta á allt að vera á réttri leið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka