45.422 einstaklingar hafa fengið bóluefni

Fólk á leið í bólusetningu í Laugardalshöll.
Fólk á leið í bólusetningu í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

45.422 þeirra 280.000 sem boðin verður bólusetning hér á landi hafa fengið eina eða tvær bóluefnasprautur gegn Covid-19. Því er bólusetning hafin eða henni lokið hjá rúmlega 16% þeirra sem fá boð í bólusetningu. 

Nærri allir sem eru eldri en 80 ára hafa fengið eina eða tvær bóluefnasprautur, en hver einstaklingur þarf tvær sprautur af bóluefni til þess að teljast fullbólusettur. Þannig eru 96,54% fólks 90 ára og eldra fullbólusett og 85% þeirra sem eru 80-89 ára. 11,53% fólks í þeim hópi hafa fengið eina sprautu. Bólusetning fólks sem er 70 ára og eldra fer fram þessa dagana og gengur hún vel, samkvæmt tölum á Covid.is. Þótt einungis 8,68% fólks í aldurshópnum 70-79 ára sé fullbólusett þá er tæpur helmingur hópsins búinn að fá eina bóluefnasprautu. 

Ríflega 5.000 bólusett á einum degi

Í öðrum aldurshópum er hlutfall bólusettra lægra en 10% enda er eldra fólk í forgangi í bólusetningu gegn Covid-19. Það eru ýmsir framlínustarfsmenn líka sem og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. 

Stærsti bólusetningardagurinn síðan bólusetningar gegn Covid-19 hófust var á föstudag þegar rúmlega 5.000 manns fengu bóluefni. Stærstur hluti skammtanna, eða 4.641, var frá AstraZeneca en hlé hafði verið gert á notkun bóluefnisins vegna ótta um að það gæti tengst blóðtöppum. Efnið er nú talið öruggt, sérstaklega fyrir eldra fólk, og var það á miðvikudag heimilað fyrir fólk sem er 70 ára og eldra. 

Langflestir, eða tæplega 28.000, hafa fengið bólusetningu með bóluefni Pfizer. Næstflestir hafa fengið bólusetningu með efni AstraZeneca, eða um 14.000 manns. Þá hafa fæstir fengið bólusetningu með efni Moderna eða um 4.000 manns. Von er á að nýtt bóluefni bætist í hópinn um miðjan aprílmánuð. Það er bóluefni Janssen sem fólk þarf einungis eina sprautu af. 4.800 skammtar eiga að berast af bóluefninu í apríl, miðað við afhendingaráætlun, og duga skammtarnir fyrir jafn marga einstaklinga.

Alls hafa 66.156 skammtar af bóluefnum verið gefnir. 20.734 einstaklingar eru þegar fullbólusettir og er bólusetning hafin hjá 24.688 einstaklingum til viðbótar.

Eins og áður hefur verið greint frá fara bóluefnasendingar til landsins sífellt stækkandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert