Samherji hf. gerir miklar athugasemdir við yfirlýsingu stjórnenda Ríkisútvarpsins (Rúv.) í tilefni af úrskurði siðanefndar Rúv. um ummæli Helga Seljans um félagið og málefni þess á félagsmiðlum.
Þar sagði að úrskurðurinn hefði engin áhrif á störf Helga, enda hefði þar ekki komið fram að hann hefði gerst brotlegur í starfi í skilningi laga. Samherji telur það ekki standast hjá stjórendunum og krefst þess að Helgi komi ekki að frekari umfjöllun um málefni félagsins.
Þetta kemur fram í bréfi, sem lögmaður Samherja sendi stjórn Ríkisútvarpsins ohf. í morgun Þar er bent á að samkvæmt úrskurðinum hafi Helgi gerst hlutdrægur og „gengið lengra en sem nam því svigrúmi sem hann hafði til að deila fréttum og fylgja þeim eftir með gagnrýnum spurningum eða ummælum, sambærilegum þeim sem hann myndi viðhafa sem fréttamaður, jafnvel þó slíkt væri gert í eigin nafni“. Brotin væru alvarleg og ítrekuð.
Samherji óskar eftir því að upplýst sé hvaða stjórnendur hafi gefið út þá yfirlýsingu, stjórn Ríkisútvarpsins eða aðrir stjórnendur og þá hverjr. Félagið telur blasa við að stjórnendurnir geri sér ekki grein fyrir alvarleika brota Helga, en úrskurðurinn hafi ekki snúið að því hvort ummæli teldust smekkleg eða ekki, líkt og þeir hafi gefið til kynna og þannig gert lítið úr alvarleika brotanna.
Ljóst sé af siðareglunum að siðanefndin mæli ekki fyrir um viðurlög, það sé útvarpsstjóra eða annarra stjórnenda að taka afstöðu til þess eftir málavöxtum og geti ekki verið háð því hvort siðanefndin telji að um brot í starfi hafi verið að ræða. Hafi niðurstaðan engin áhrif á störf Helga sé stofnunin að segja að siðareglurnar megi brjóta að vild án afleiðinga.
Samherji krefst þess því, að stjórn Ríkisútvarpsins ohf. taki siðanefndarúrskurðinn til sérstakrar athugunar, svo slík slys hendi ekki aftur. Eins að athugað verði hvort starfsmannaréttarleg viðurlög, svo sem áminning, komi til greina.
Sérstaklega er þess þó krafist „að Helgi Seljan fjalli ekki um málefni er tengjast samstæðu Semherja hf. í starfi sínu hjá Ríkisútvarpinu, né komi á nokkurn hátt að vinnslu efnis tengdu félaginu, enda hefur verið kveðið skýrlega á um hlutdrægni og neikvæða persónulega afstöðu hans til félagsins í úrskurði siðanefndar“.