„Þetta gekk alveg þokkalega en við fengum alveg ofboðslega mikinn bílafjölda og mannfjölda inn á svæðið. Þetta er of mikið, við ráðum ekki við þetta.“
Hjálmar Hallgrímsson, lögreglumaður á Suðurnesjum, segir svona frá önnum gærdagsins. Hann hefur meðal annarra annast vettvangsstjórn við gosstöðvarnar í Geldingadölum, en fjöldi fólks hefur á undanförnum dögum lagt leið sína út með Reykjanesskaga til að berja augum jarðeldana.
„Þetta endaði líka með tveimur lokunum um tíma og þetta var bara þó nokkuð mikið vesen. Því það lá fyrir að veðrið var gott og fólk vildi fara að skoða,“ segir Hjálmar.
Spurður hvernig álagið lýsi sér mest bendir hann á að fjöldi bílastæða sé takmarkaður.
„Við erum með kannski eins og einhver 500 stæði núna, en ég er þó algjörlega að skjóta út í bláinn.“
Þegar þú segir stæði, þá meinarðu einfaldlega vegkantinn?
„Já, vegkant og inn á tún. Við höfum náð góðri samvinnu við landeigendur – þetta er í eigu Hrauns og Ísólfsskála – og við höfum náð samningum um að við séum að reyna að leysa þetta saman.
Við erum að vinna þetta mjög hratt. Þeir eru til dæmis að laga aðgengi að þessum svokölluðu bílastæðum, þetta eru klárlega ekki bílastæði, þannig að fólk geti lagt og farið stystu leið inn á gönguleiðina. Sú vinna gengur vel.“
Hjálmar tekur fram að búist sé við mikilli aðsókn um páskana, sérstaklega ef vel viðrar.
„Þannig að við erum að reyna að bjóða upp á fleiri bílastæði, ef það er möguleiki.“
Spurður hvort aðsóknin reyni ekki á mannskap lögreglunnar kveður hann já við, en segist hafa mun meiri áhyggjur af björgunarsveitarfólki.
„Öllu því fólki sem er að vinna og hjálpa okkur að eiga við þetta, sem við gætum aldrei gert nema vegna þess hvað við eigum frábærar björgunarsveitir. Það er álag á þeim líka. En við erum bara að fikra okkur áfram og reka okkur á, og reyna að hafa þetta sem best þannig að allir geti verið sáttir.“
Mest hefur mætt á björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík. „Þrátt fyrir mikið álag síðustu daga er mannskapurinn okkar nokkuð hress og álagið dreifist á um 35 félaga sveitarinnar. Tækin okkar eru þó í stanslausri notkun og er verulega farið að sjá á búnaði,“ sagði í tilkynningu sveitarinnar á laugardag. Þar var einnig útlistað hvernig styrkja mætti sveitina.
Hann segist ekki verða var við að fólk sé ósátt við störf lögreglu á svæðinu.
„Þetta gengur ótrúlega vel. Auðvitað er alltaf einn og einn en það er ekkert til þess að tala um, miðað við þennan fjölda sem er þarna. En við höfum líka reynt að gera eins og við getum til að greiða leið fólks.
Þetta á alveg að ganga upp, en síðan er það spurningin: Hvað ráðum við við marga í einu? Það þarf að skoða, hvað er óhætt að hafa margt fólk á svæðinu út frá björgun og eftirliti með gosstöðvunum og gönguleiðunum. Svo eru veður þannig að það getur verið fljúgandi hálka.
Núna er norðanátt, mínus tveir, og þá er nú eitthvað meira uppi á fjalli. Það er í mörg horn að líta.“
Svo megi ekki gleyma kórónuveirunni.
„Það er enn eitt áhyggjuefnið sem við þurfum að taka inn í alla þessa jöfnu.“