„Morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir“

„Ég tel að morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir, er varða meinta óvildarmenn og ærumeiðingar í þeirra garð, sé í raun óverjandi hegðun forstjóra alþjóðlegra fyrirtækja,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Halldórs Kristmannssonar sem starfaði náið með Róberti Wessman í langan tíma.

Fjallað var um málið í Morgunblaðinu í dag en Halldór hefur sent mbl.is yfirlýsingu varðandi málið og er það textinn sem birtur er hér að neðan.

Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri og fjölmiðlatengiliður hjá Alvogen.
Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri og fjölmiðlatengiliður hjá Alvogen. Ljósmynd/Aðsend

Halldór Kristmannsson, náinn samstarfsmaður Róberts Wessman til 18 ára, hefur stigið fram sem uppljóstrari innan lyfjafyrirtækjanna Alvogen og Alvotech. Halldór sendi stjórnum fyrirtækjanna bréf þann 20. janúar 2021, þar sem vakin var athygli á stjórnunarháttum og ósæmilegri hegðun Róberts.

Halldór hefur verið framkvæmdastjóri hjá Alvogen og Alvotech frá stofnun fyrirtækjanna, og meðal annars borið ábyrgð á markaðs- og ímyndarmálum um allan heim, auk samskipta við fjárfesta og fjölmiðla. Hann hefur nú skorað á stjórnir Alvogen og Alvotech að gangast undir sátt í málinu, sem feli í sér að Róbert víki sem forstjóri. Engar fjárhagslegar kröfur eru gerðar á hendur fyrirtækjunum.

Í ítarlegri greinargerð er skorað á stjórnir fyrirtækjanna að taka líflátshótanir og ógnandi textaskilaboð Róberts til sérstakrar rannsóknar, en þar er fyrrverandi samstarfsmönnum og fjölskyldum þeirra ógnað. Jafnframt hefur Halldór lagt fram tugi tölvupósta og textaskilaboða, sem sýna hvernig hann var beittur óeðlilegum þrýstingi til að koma höggi á óvildarmenn Róberts, sem hann bar þungum sökum.

„Samstarf okkar Róberts hefur að mestu le[y]ti verið farsælt. Það myndaðist hinsvegar alvarlegur ágreiningur á milli okkar sumarið 2018 og aftur í september 2020, þegar Róbert bar háttsetta embættismenn á Íslandi, alþjóðlegan fjárfesti og íslenskan blaðamann þungum sökum. Í tugum tölvupósta og textaskilaboða Róberts eru umræddir óvildarmenn bornir þungum sökum, sem ég tel að hafi í senn verið algjörlega ósannar og svívirðilegar. Ég hef lagt fram þessi gögn og óskað eftir því formlega við Róbert og stjórnir fyrirtækjanna að þau svari þessum ásökunum. Ég hef jafnframt sett mig í samband við alla þessa aðila, sem ég tel rétt að Róbert biðji afsökunar.“

„Ég taldi fulla ástæðu til þess að setja fótinn niður og tjáði Róbert ítrekað, að ég myndi ekki beita mér fyrir því að koma höggi á umrædda aðila í fjölmiðlum og vega beinlínis að æru og mannorði þeirra, eins og hann vildi. Ég var um tíma útgefandi Mannlífs, sem Róbert fjármagnaði og átti, en þar myndaðist til að mynda mikill ágreiningur um ritstjórnarstefnu og sjálfstæði. Úr þessu skapaðist vaxandi ósætti okkar á milli, sem gerði það að verkum að ég steig nauðbeygður til hliðar tímabundið, og upplýsti stjórnir fyrirtækjanna um málavexti.  Ég vil standa vörð um ákveðin siðferðisleg gildi, og lét því ekki hagga mér í þessum málum.“

Halldór segir að sér hafi þótt dapurlegt að vita til þess að Róbert hafi sent fyrrum samstarfsfélögum sínum morðhótanir árið 2016 og honum hafi verið brugðið. Slíkar hótanir varði allt að tveggja ára fangelsi hér á landi. Þá sé enn sorglegra að viðurkenna, að hafa orðið persónulega fyrir líkamsárás og orðið vitni að annarri frá Róbert, þegar hann var undir áhrifum áfengis á viðburðum fyrirtækisins erlendis. „Þegar ég síðar nefndi þetta við Róbert sagðist hann hafa verið að grínast og við hefðum verið í kýlingaleik. Ég var beinlínis kýldur kaldur í andlitið án fyrirvara í vitna viðurvist. Mér var augljóslega ekki skemmt, og hef ekki orðið var við það almennt séð að forstjórar fari í kýlingaleiki við samstarfsmenn.“

„Ég er bundinn trúnaði um flest þau atriði sem ég lagði fram fyrir stjórnir fyrirtækjanna, en tel mig þó vera í fullum rétti sem uppljóstrara að greina frá persónulegum atriðum, sem ekki varða beinlínis hagsmuni fyrirtækjanna. Ákvörðun stjórnar Alvogen að stíga fram í síðustu viku, gerði það að verkum að ég á ekki annan kost en að upplýsa um ástæður málsins, sem ekki eru bundnar trúnaði. Ég hef ítrekað boðið sátt í málinu og að það verði leyst utan fjölmiðla.“

Alvogen tilkynnti um niðurstöður rannsóknar í síðustu viku, en þar er Róbert sagður hafa verið til rannsóknar í tvo mánuði og að Thomas Ekman, einn af eigendum CVC Capital Partners hafi leitt umrædda rannsókn stjórnarinnar. Í yfirlýsingu segir: „Allir starfsmenn sem rætt var við báru Róberti vel söguna og sögðu hann sanngjarnan og öflugan leiðtoga. Þá bentu engin gögn til þess að eitthvað væri athugavert við stjórnunarhætti Róberts.“ Halldór segir niðurstöðu rannsóknar, sem hann hafi fyrst heyrt af í fjölmiðlum, og ekki enn verið upplýstur um, sé augljós „hvítþvottur“ undir áhrifum Róberts.

„Ég tel að morðhótanir, líkamsárásir og svívirðilegar ásakanir, er varða meinta óvildarmenn og ærumeiðingar í þeirra garð, sé í raun óverjandi hegðun forstjóra alþjóðlegra fyrirtækja. Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um hæfi hans sem stjórnanda.  Hinsvegar vona ég að þessi fyrirtæki blómstri í framtíðinni, þannig að ég sem hluthafi, geti verið stoltur af framgangi þeirra,“ segir í yfirlýsingunni sem Halldór sendi frá sér í morgun. 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert