Uppruni smitanna þriggja óþekktur

„Það eru þarna smá blikur á lofti sem gætu orðið …
„Það eru þarna smá blikur á lofti sem gætu orðið að einhverjum stærri hópsýkingum ef við pössum okkur ekki,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Arnþór

Uppruni kórónuveirusmitanna þriggja sem greindust utan sóttkvíar um helgina er óþekktur og er í öllum tilvikum um að ræða aðrar undirtegundir breska afbrigðis veirunnar en hafa greinst áður hér á landi og við landamærin. Þetta segir sóttvarnalæknir. Hann segir að þetta sé vísbending um að veiran sé úti í samfélaginu og hvetur fólk til að mæta í sýnatöku. 

„Við getum ekki tengt þessi smit við önnur þekkt smit. Raðgreining til þessa hefur sýnt að þetta er öðruvísi veira en áður hefur verið að greinast og hefur ekki greinst á landamærunum þannig að einhvern veginn hefur hún komist fram hjá landamæraeftirlitinu. Það er ákveðið áhyggjuefni að við skulum greina slíkar veirur í samfélaginu án þess að hafa neinar tengingar. Ég held að við þurfum að fylgjast mjög vel með því áfram,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Þetta segir okkur þá væntanlega að smitið sé úti í samfélaginu og jafnvel útbreitt?

„Fyrst við erum að greina þetta hér og þar þá er það náttúrlega vísbending um að þetta sé komið út í samfélagið en í hversu miklum mæli vitum við náttúrlega ekki. Vegna þessa hvetjum við fólk til að mæta í sýnatökur eins og hægt er. Það er eiginlega eini möguleikinn til þess að ná utan um þetta, það er að greina þetta mjög snemma,“ segir Þórólfur. 

Göt í kerfinu sem stendur

Þeir þrír sem voru utan sóttkvíar við greiningu um helgina höfðu ekki sótt sérstaklega mannmarga staði á dögunum áður en þeir greindust smitaðir og því hafa ekki margir þurft að fara í sóttkví vegna smitanna. 

Spurður hvort og þá hvernig sé möguleiki á því að koma í veg fyrir að veiran komist fram hjá kerfinu á landamærum segir Þórólfur:

„Við erum náttúrlega að skoða mjög vel þá veikleika sem eru í þessu kerfi á landamærunum. Það hefur ýmislegt verið í deiglunni. Það eru breytingar sem eiga að taka gildi fyrsta apríl, sýnatökur hjá börnum og það að geta skyldað fólk í sóttvarnahús til þess að geta fylgst betur með því á meðan það er í sóttkví. Ég hef komið með tillögu um það að við tökum sýni frá þeim sem eru með vottorð um bólusetningu eða fyrri sýkingar svo þeir séu ekki að koma inn með veiruna svo það er ýmislegt sem við erum að gera til þess að reyna að fylla upp í þessi göt sem eru í kerfinu okkar núna.“

Gætu orðið að stærri hópsýkingum

Spurður hvort möguleiki sé á því að eitthvað verði létt á aðgerðum innanlands áður en gildistími þeirra rennur út eftir rúmar tvær vikur segir Þórólfur:

„Ég held að við eigum að halda okkur við þessar tvær til þrjár vikur. Það tekur þennan tíma að sjá árangurinn af því. Við getum auðvitað glaðst yfir því að við erum ekki að sjá aukningu en það eru þarna smá blikur á lofti sem gætu orðið að einhverjum stærri hópsýkingum ef við pössum okkur ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert