Í sumar er áformað að bæta ásýnd Hafnartorgs í Kvosinni í Reykjavík en svæðið hefur sætt gagnrýni fyrir að vera kuldalegt og vindasamt.
„Með meiri gróðri á Hafnartorgi, bæði á Reykjastræti og Kolagötu og vel völdum setsvæðum, verður svæðið vonandi meira aðlaðandi, veðursælla og lygnara,“ segir í svari skipulagsfulltrúa Reykjavíkur við fyrirspurn Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins. Spurði Kolbrún hvort skipulagsyfirvöld borgarinnar muni beita sér til að gera þetta svæði meira aðlaðandi, veðursælla og lygnari stað.
Fram kemur í svari skipulagsfulltrúa að svæði sem tilheyrir deiliskipulagi Austurhafnar, allt frá Hörpu í norðri yfir Geirsgötu og út að Tryggvagötu og á milli Kalkofnsvegar/Arnarhóls til austurs og hafnarbakkans til vesturs, sé allt innan sömu lóðar. Innan lóðarinnar eru tvær göngugötur; Reykjastræti og Kolagata, auk þess sem Geirsgata liggur í gegnum lóðina, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.