Margir urðu fyrir miklum vonbrigðum

Hundruðum gesta var snúið við við gosstöðvarnar í dag, sumum …
Hundruðum gesta var snúið við við gosstöðvarnar í dag, sumum eftir að hafa beðið klukkustundum saman eftir að fá að leggja bílnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tekið var fyrir frekari bílaumferð að gossvæðinu í Fagradalsfjalli klukkan sex í kvöld með þeim afleiðingum að farþegar í hundruðum bíla, sem sumir höfðu þegar beðið klukkustundum saman, þurftu að snúa við.

Sigurjón Guðjónsson, nemi í megindlegri sálfræði, var á meðal þeirra sem fóru í fýluferð að eldgosinu í dag.

„Þetta voru vonbrigði en ég bjóst samt við því að þetta gæti gerst,“ segir Sigurjón í samtali við mbl.is. Planið er að reyna aftur eftir viku en litlu munaði að Sigurjón yrði í næsta holli bíla sem hleypt yrði að gossvæðinu. Sú reyndist ekki raunin.

Hann var ásamt þremur öðrum í bíl á Krýsuvíkurvegi, þar sem björgunarsveitarmaður tilkynnti þeim fyrst um sinn að þau þyrftu líklega að bíða í einhverjar klukkustundir eftir að fá að halda áfram að svæðinu.

Svo leið og beið og um klukkustund síðar kom björgunarsveitarmaðurinn aftur og tilkynnti þeim að svæðinu hefði verið lokað alveg.

Þegar Sigurjón og félagar voru sendir heim hafði myndast röð á annað hundrað bíla fyrir aftan, sem allra biðu sömu örlög. Þau voru stödd hjá einni af þremur leiðum að fjallinu, þannig að gera má ráð fyrir að fleiri hundruð hafi lent í því sama við hinar leiðirnar.

Bílastæði af skornum skammti

Fjallið verður opnað aftur í fyrramálið. Aðsóknin í dag var óeðlilega mikil og var ástæðan lokunarinnar áðan í raun of mikil umferð um svæðið.

Ljóst er að svæðið þolir ekki þann ágang sem fylgir för fólks að gosinu, meðal annars þegar kemur að bílastæðum, sem eru af mjög skornum skammti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert