Of mikil umferð um neyðarleið

Um er að ræða neyðarakstursleið fyrir viðbragðsaðila sem hafa kvartað …
Um er að ræða neyðarakstursleið fyrir viðbragðsaðila sem hafa kvartað undan mikilli umferð um slóðann. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurnesjum

Mikill fjöldi undanþágubeiðna hefur borist lögreglustjóranum á Suðurnesjum vegna fólks sem vill aka vegslóðann sem liggur upp að eldstöðinni í Geldingadölum. Um er að ræða neyðarakstursleið fyrir viðbragðsaðila sem hafa kvartað undan mikilli umferð um slóðann.

„Frá því um níu í morgun höfum við fengið á bilinu 20 og 30 undanþágubeiðnir. Þetta heldur bara áfram og þær koma úr öllum áttum. Við höfum bundið þetta við fréttamenn og vísindamenn með þeim skilyrðum að tækjabúnaður ráði við veginn,“ segir Gunnar Schram, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Suður­nesj­um.

„Síðan er það allt hitt; þetta fyrirtæki út af þessu og þessi hljómsveit út af þessu og svo framvegis,“ segir Gunnar. Einnig hafa borist beiðnir út af fötluðu fólki og öðrum sem eiga af ýmsum ástæðum erfitt með gang.

„Þetta er orðið svo mikið og viðbragðsaðilar hafa kvartað yfir umferð um slóðann.“

Gunnar spyr hvar eigi að draga línuna varðandi undanþágurnar og segir að málið væri einfaldara ef annar vegslóði lægi að gosstöðvunum. Aðgerðastjórn, sem hafi nóg á sinni könnu, eigi fullt í fangi með að afgreiða þessar beiðnir og biðlar Gunnar til fólks að það hugsi sig tvisvar, jafnvel þrisvar, um áður en það sendir undanþágubeiðni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert