Nokkur þeirra kórónuveirusmita sem greinst hafa utan sóttkvíar undanfarið tengjast einstaklingum sem komið hafa smitaðir til landsins og ekki haldið sína fimm daga sóttkví á milli skimana almennilega. Uppruni smits sem greindist utan sóttkvíar í gær, sem og tveggja annarra sem greindust utan sóttkvíar nýlega, er enn óljós.
Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Nú er unnið að því að finna uppruna smitsins sem greindist utan sóttkvíar í gær enda stendur raðgreining yfir.
„Það hefur komið í ljós að sum af þessum smitum sem hafa greinst [utan sóttkvíar] undanfarið má rekja til landamæra þar sem fólk hefur ekki haldið fimm daga sóttkví almennilega,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.
Níu innanlandssmit sem greindust innan sóttkvíar í gær tengjast öll fyrri smitum og segir Þórólfur aðspurður að í sjálfu sér sé ekki tilefni til að hafa áhyggjur af þeim.
„Við vonum náttúrlega bara að fólk hafi haldið sína sóttkví. Ef allir gera það þá fáum við ekki frekari dreifingu en þetta stendur allt og fellur með því í raun og veru. Við megum búast við fleiri greiningum hjá fólki í sóttkví. Það er eðli þess, um 5% þeirra sem hafa verið í sóttkví hafa greinst smitaðir.“
Í gær greindi mbl.is frá tveimur smitum á meðal barna á leikskólaaldri. Þórólfur segir að börnin hafi ekki smitast í leikskólanum og telur smitin ekki ástæðu til þess að ætla að mistök hafi verið að takmarka ekki starfsemi leikskóla á sama tíma og öðrum skólastigum var lokað.
„Við höfum aldrei sagt að leikskólabörn geti ekki smitast en smithættan er bara miklu minni,“ segir Þórólfur.
Útlit er fyrir að skólarnir verði aftur opnaðir eftir páska en það verður sennilega með einhverjum takmörkunum, að sögn Þórólfs.