Hvað hafa bændur gert?

Margur taldi vegið að íslensku sauðkindinni í umfjöllun Sævars. Guðfinna …
Margur taldi vegið að íslensku sauðkindinni í umfjöllun Sævars. Guðfinna segir að hver hafi sína skoðun á því en telur mikilvægt að bændur finni fyrir stuðningi. mbl.is/Sigurður Bogi

Skilningur landsmanna á framlagi bænda til umhverfis- og loftlagsmála er afar mikilvægur að sögn Guðfinnu Hörpu Árnadóttur, formanns Landssamtaka sauðfjárbænda.

Umfjöllun Sævars Helga Bragasonar í þættinum „Hvað getum við gert?“ sætti gagnrýni á meðal sauðfjárbænda í Facebook-hópnum Sauðfjárbændur, þar sem meðal annars var talið að í þættinum hafi verið farið offari í dagskrárgerð og um áróður gagnvart bændum og sauðkind væri að ræða.

Í þættinum sem sýndur var á mánudag fjallaði Sævar um gróðurlaust land á Íslandi og þátt íslensku sauðkindarinnar í þeim efnum.

Sævar Helgi Bragason fjallaði um lausnir við loftslagsvandanum í þáttaröðinni …
Sævar Helgi Bragason fjallaði um lausnir við loftslagsvandanum í þáttaröðinni Hvað getum við gert? Umfjöllunin féll í grýttan jarðveg meðal sauðfjárbænda. mbl.is/Kristinn Magnússon

 Bændur hafi tekið til hendinni 

Guðfinna tekur fram að bændur fari inn í umræðuna á eigin forsendum en aðspurð segir hún bændur hafa tekið til hendinni á þeim sviðum sem komið er inn á í þættinum:

„Umræðan í þættinum er mjög stíluð á hnignað land, það er að segja nýtingu á afréttum og að þar sé um að ræða hnignað land. En þar höfum við tekið til hendinni,“ segir hún og heldur áfram.

„Það hefur ekki verið neitt viljaleysi hjá sauðfjárbændum að friða land þar sem þörf er á, til dæmis í gegnum landnýtingarþátt gæðastýringarinnar, verkefni sem hófst upp úr árinu 2000. Í gegnum það verkefni hafa bændur friðað 8.500 ferkílómetra lands sem flokkast í lökustu ástandsflokkana samkvæmt Grólindarverkefninu,“ segir hún.

Til viðbótar hafi beitartími verið styttur og beit verið stýrt á öðrum svæðum, í samstarfi við sérfræðinga Landgræðslunnar.

„Viljum ganga enn öflugar inn í þessi verkefni“

„Eins hafa bændur á þessum afréttum sem þarna er vitnað í unnið alveg ofboðslega mikið landgræðslustarf, á þeim svæðum sem búið er að vinna á ætti að vera búið að binda töluvert mikið af kolefni,“ segir hún.

Það sé í gegnum verkefni eins og Bændur græða landið, samstarfsverkefni við Landgræðsluna, landbótasjóð Landgræðslunnar og uppgræðsluverkefni félagasamtaka á þessum svæðum eins og til dæmis uppgræðslufélög fjallskiladeildanna. 

„Ég held við getum verið stolt af því hvernig komið hefur verið að þessu,“ segir hún.

Finnst þér mikilvægt að fólk átti sig á framlagi bænda til loftslagsmála?

„Það er ekki spurning. Við þurfum auðvitað á stuðningi að halda og við viljum ganga áfram og enn öflugar inn í þessi verkefni en við höfum verið að vinna þau að hluta með fjárveitingum landgræðslunnar. Auðvitað er skilningur landsmanna á því sem við erum að gera mikilvægur,“ segir hún í lokin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert